Þórir stýrði Noregi í síðasta sinn er liðið vann Danmörku í úrslitaleik EM á sunnudaginn var. Noregur vann þar sjötta Evróputitil liðsins undir stjórn Þóris sem hefur stýrt landsliðinu frá 2009, eftir að hafa áður verið aðstoðarþjálfari frá 2001.
Aðspurður hvort það sé sokkið inn að starfi hans með norska liðið sé lokið segir Þórir:
„Já og nei. Þetta er svolítið skrýtið. Það er einhvern veginn allt á fullu, svo er leikurinn búinn og margt sem gerist beint eftir leik. Svo fer fólk heim og maður er varla búinn að ná áttum ennþá. Það kemur af alvöru einhvern tímann á nýja árinu þegar maður er vanur því að fara í eftirvinnu. Þá kemur sjálfsagt einhver tilfinning sem er öðruvísi,“ segir Þórir í samtali við íþróttadeild.
En hvað hefurðu verið að gera þessa daga eftir mót?
„Það er nú mest lítið. Ég er eiginlega bara búinn að vera að jafna mig, þessa tvo daga. Hef tekið því rólega, slappað af og náð áttum, það er aðallega það,“ segir Þórir.
Leikið er knappt, á tveggja daga fresti, á stórmótunum og sinna öllu sem þeim fylgja. Mikið álag fylgi en Þórir segir mótin á góðum tíma, gott sé að koma heim í jólaundirbúning eftir álagstíð.
„Ég hef alltaf sagt það að þetta er fullkominn tími að hafa þessi mót rétt fyrir jól. Þegar jólin koma fara allir í smá frí og kúpla sig út. Þetta er mjög góður tímapunktur og geta komið heim í rólegheit eftir mót, að slappa af með vinum og fjölskyldu,“ segir Þórir.
Nánar verður rætt við Þóri í Sportpakkanum sem er klukkan 18:45 á Stöð 2 í kvöld.