Kryddsíld verður í opinni dagskrá og beinni útsendingu klukkan 14 þann 31. desember. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að áhorfendur hafa sterkar skoðanir á því hvað er nauðsynlegt að ræða á þessum tímamótum. Í ár gefum við landsmönnum tækifæri til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri í aðdraganda þáttarins.
Kryddsíldina frá því í fyrra má sjá hér að neðan.
Gestir þáttarins verða formenn þeirra sex stjórnmálaflokka sem nú sitja á Alþingi, þeirra þriggja sem mynda ríkisstjórn og svo þeirra þriggja sem sitja í stjórnarandstöðu, þau Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Hvað þarf að ræða sem tengist árinu sem er að líða? Viðburðaríku ári þar sem nýr forseti Íslands var kjörinn, ríkisstjórnin sprakk, Trump sneri aftur og stríðsátök jukust víða um heim? Að hverju þarf að spyrja leiðtogana? Hverju má ekki gleyma?
Sendu þínar hugleiðingar á netfangið ritstjorn(hja)visir.is og láttu okkur vita. Við viljum vita hvað þér finnst.
Kryddsíld verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 14 á gamlársdag.