Um nýliðna helgi hefur verið fjallað um hugmyndir um að fresta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem að óbreyttu á að fara fram í lok febrúar. Meðal annars hefur verið talað um að gera það vegna möguleika á slæmri færð á þeim árstíma.
Í ályktun sem stjórn Heimdallar samþykkti í dag segir einnig að landsfundir flokksins hafi áður verið haldnir í febrúar og það séu því engin nýmæli.
„Heimdellingar biðla til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins að fresta ekki landsfundinum 28. febrúar - 2. mars,“ segir í ályktuninni.
Þar segir að nýr raunveruleiki blasi við í stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn sé í fyrsta sinn í meira en áratug í stjórnarandstöðu eftir að hafa fengið minnsta fylgi í sögu flokksins í nýafstöðnum kosningum. Hins vegar hafi mikið af öflugu og sérstaklega ungu fólki komið inn í flokksstarfið í baráttunni og núna sé tíminni fyrir sjálfstæðismenn að koma saman, stilla saman strengi sína og marka upphafið í stjórnarandstöðu.
Í ályktuninni kemur einnig fram að undirbúningur fyrir málefnastarf sé forsvaranleg afsökun fyrir frestun landsfundar. Eðlilegra væri að miðstjórn gæfi aukinn frest fyrir skil frá málefnanefndum en að fresta fundinum í annað skipti. Fordæmi hafi verið gefið fyrir slíkum breytingum á reglum flokksins í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar.
Skiptar skoðanir um mögulega frestun landsfundar hafa verið látnar flakka um helgina og hafa forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins jafnvel verið sakaðir um „baktjaldamakk“.