„Ég fékk mjög mikið í magann og fór næstum því að grenja því mig langaði ekki að gera þetta,“ segir María Reyndal leikstjóri Skaupsins um það þegar hún var beðin um að leikstýra.
„Ég var bara í húsinu mínu í Hrísey í rólegheitunum og var bara að segja við sjálfan mig að ég væri ekki að fara gera þetta. Svo bara gerðist eitthvað og þetta var svo skemmtilegt ár. Forsetakosningarnar og allt efnið í kringum þær. Ég hugsaði bara, æji ég geri þetta bara einu sinni og get ekki skorast undan,“ segir María.
Höfundar Áramótaskaupsins 2024 voru þau Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Friðgeir Einarsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Ólafur Ásgeirsson, Hugleikur Dagsson og María Reyndal sem einnig er leikstjóri og yfirhandritshöfundur.
En myndi María gera þetta aftur?
„Það var einhver sem sagði að maður ætti alltaf allavega að taka eitt ár í frí og núna er ég bara að fara gera eitthvað annað“.
Katla Margrét hefur sannarlega komið að Skaupinu áður og það margoft.
„Þetta var aðeins öðruvísi að þessu sinni því María Reyndal er svo mikill vinnuhestur að ég þurfti liggur við að segja upp í leikhúsinu,“ segir Katla sem fer yfir hennar þátttöku í þessum vinsæla árlega þætti í innslaginu hér að neðan.