Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, hafði greint frá því að einn erlendur aðili hafi verið boðaður í starfsviðtal hjá sambandinu vegna landsliðsþjálfarastarfsins auk þeirra Freys Alexanderssonar og Arnars Gunnlaugssonar.

Högmo var nafnið sem var nefnt hvað mest til sögunnar og var orðaður við starfið í norskum fjölmiðlum. Hann var hins vegar ekki boðaður í viðtal.
„Ég ætla ekki að gefa upp hver það var sem var til viðtals. En nei, það var ekki hann. En ég ætla svo sem ekki að gefa upp hver það var,“ sagði Þorvaldur í samtali við Stöð 2 eftir fund hans með Arnari Gunnlaugssyni á Hilton í morgun.
Svíinn Janne Andersson hefur verið nefndur til sögunnar sem erlendi aðilinn sem á við en líkt og fram kemur að ofan vildi Þorvaldur ekki staðfesta hver erlendi aðilinn væri. Víst er þó að sá aðili er ekki Högmo.
Freyr Alexandersson fer á fund með forráðamönnum Brann í Noregi í dag en fundaði með KSÍ í gær. Talið er að Freyr sé ofarlega á lista Brann en frekari tíðinda er að vænta eftir viðtal dagsins. Freyr hafði áður fengið fundarboð frá Molde en líkt og segir að ofan mun Högmo taka við þjálfarastarfinu á þeim bænum.
Nánar verður rætt við Þorvald í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.