Erlent

Vörpuðu fimm­tíu sprengjum á þrjú skot­mörk í Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir flugmenn á leið til árása í Jemen í morgun.
Ísraelskir flugmenn á leið til árása í Jemen í morgun. Flugher Ísrael

Ísraelar vörpuðu í morgun sprengjum á Jemen. Eru þessar árásir sagðar viðbrögð við dróna- og eldflaugaárásum Húta á Ísrael á undanförnum vikum. Fyrr í vikunni vörpuðu Bandaríkjamenn sprengjum á skotmörk sem þeir segja í eigu Húta.

Forsvarsmenn flughers Ísrael segja rúmlega tuttugu flugvélar hafa komið að árásunum. Þar á meðal orrustuþotu, eldsneytisflugvélar og eftirlitsvélar.

Þeir segja um fimmtíu sprengjum hafa verið varpað á þrjú skotmörk. Eitt þeirra er orkuver nærri Sanaa, höfuðborg Jemen. Hin tvö skotmörkin eru hafnir sem Hútar stjórna á vesturströnd landsins.

Í yfirlýsingu frá ísraelska hernum segir að orkuverið sé mikilvægt Hútum og að Ísraelar muni ekki hætta að verja Ísrael gegn utanaðkomandi árásum. Herinn segir einnig að þó Hútar séu sjálfstæðir reiði þeir á stuðning og fjármagn frá Íran til að gera árásir á Ísrael.

Hútar hafa á undanförnu ári skotið þó nokkrum stýri- og skotflaugum að Ísrael og flogið sjálfsprengidrónum þangað. Það segjast þeir gera af samstöðu með Palestínumönnum á Gasaströndinni.

Hópurinn, sem nýtur stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran, stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri. Átökin hafa leitt til hrikalegs mannúðarástands í Jemen, þar sem fátækt er mikil. Hungursneyð og smitsóttir hafa leikið í íbúa landsins grátt.

Ráðamenn í Ísrael hafa að undanförnu hótað Hútum umfangsmiklum árásum.


Tengdar fréttir

Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi

Tveir flugmenn sjóhers Bandaríkjanna lifðu af þegar herþota þeirra var skotin niður yfir Rauðahafi í nótt. Svo virðist sem þotan hafi verið skotin niður af Bandaríkjamönnum sjálfum og var það í kjölfar loftárásar gegn Hútum í Jemen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×