Erlent

Hyggjast leggja 100 prósent skatt á eignakaup út­lendinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar vinsælla ferðamannastaða á Spáni, til að mynda Alicante, efndu til mótmæla í fyrra gegn „massatúrisma“.
Íbúar vinsælla ferðamannastaða á Spáni, til að mynda Alicante, efndu til mótmæla í fyrra gegn „massatúrisma“. Getty/LightRocket/Marcos del Mazo

Stjórnvöld á Spáni hafa í hyggju að leggja allt að 100 prósent skatt á íbúðir keyptar af einstaklingum og fyrirtækjum utan Evrópusambandsins. 

Forsætisráðherrann Pedro Sánchez greindi frá þessu í gær og sagði um að ræða fordæmalausar en nauðsynlegar aðgerðir til að mæta húsnæðisvandanum í landinu.

„Vesturlönd standa andspænis stórum vanda; að verða ekki að samfélagi tveggja stétta, ríkra leigusala annars vegar og fátækra leigjenda hins vegar,“ sagði hann.

Forsætisráðherrann sagði íbúa utan Evrópusambandsins hafa keypt 27 þúsund eignir á Spáni í fyrra, ekki til að búa í heldur til að hagnast á. Þetta mætti ekki gerast þegar landsmenn byggju við íbúðaskort.

Nánari útfærsla á skattheimtunni liggja ekki fyrir en hann sagði að tillögur yrðu lagðar fram eftir vandlega athugun.

Stjórnvöld hyggjast einnig grípa til annarra aðgerða til að sporna gegn íbúðaskorti, til að mynda skattaívilnanir til handa leigusölum sem leigja íbúðir á viðráðanlegu verði og hert regluverk og aukna skattheimtu vegna íbúa sem leigðar eru til ferðamanna.

„Það er ekki sanngjarnt að þeir sem eiga þrjár, fjórar eða fimm íbúðir í skammtímaleigu borgi minni skatt en hótel,“ sagði Sánchez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×