Innlent

Skipu­lagði lofts­lags­verk­föll og að­stoðar nú lofts­lags­ráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Jóna Þórey Pétursdóttir, nýr aðstoðarmaður Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Jóna Þórey Pétursdóttir, nýr aðstoðarmaður Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Stjórnarráðið/Sara Björk Þorsteinsdóttir

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ráðið Jónu Þóreyju Pétursdóttur sem annan aðstoðarmann sinn. Jóna Þórey er lögmaður sem hefur sinnt málum á sviði umhverfis- og eignarréttar. Á háskólaárum sínum sat hún í skipulagsteymi loftslagsverkfalla ungs fólks.

Jóna Þórey, sem tekur til starfa í ráðuneytinu í febrúar, hefur starfað hjá Rétti lögmannsstofu frá árinu 2022. Þá hefur hún verið stundakennari í meistaranámi við lagadeild Háskóla Íslands á sviði umhverfisréttar. Hún starfaði á sviði samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun sumarið 2021, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Hún útskrifaðist með BA- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands þar sem hún var jafnframt forseti Stúdentaráðs frá 2019 til 2020. Sat hún í skipulagsteymi Loftslagsverkfallanna á sama tíma. Árið 2022 útskrifaði Jóna Þórey með láði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi þar sem hún nam mannréttindalögfræði. Lagði hún meðal annars áherslu á rétt til umhverfis í því námi.

Jóna Þórey var ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðnum á sviði mannréttinda frá 2020 til 2022. Hún hefur einnig setið í ýmsum stjórnum og nefndum, þar á meðal stjórn Menntasjóðs námsmanna frá 2022 til 2024 og sem varamaður í loftslagsráði frá 2019 til 2023.

Áður hafði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra,  ráðið Lárus M. K. Ólafsson, lögfræðing, sem aðstoðarmann sinn. Lárus var meðal annars yfirlögfræðingur Orkustofnunar frá 2008 til 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×