Bjarki Páll Eysteinsson, verkfræðingur, náði myndunum sem fylgja fréttinni þegar hann var á ferð við Akureyrarkirkju og miðbæinn klukkan 10:15 í morgun. Í samtali við Vísi sagðist hann hafa heyrt af því að glitský hefðu sést yfir bænum síðustu daga en þó ekki eins mikið og í morgun.

Ólíkt hefðbundnum skýjum eru glitský ekki úr vatnsgufu heldur ískristöllum. Þau myndast í um fimmtán til þrjátíu kílómetra hæð í hveiðhvolfi lofthjúps jarðar. Þau sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða uppkomu þegar sól er lágt á lofti, að því er kemur fram í grein um glitský á vef Veðurstofu Íslands.
Glitský eru litskrúðug og þykja minna á liti sem má sjá innan á sumum skeljum. Ískristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið en mismikið eftir bylgjulengd þess. Litirnir eru háði stærðardreifingu agna í skýjunum þannig að oft sjást rauðir, gulir og grænir flekkir í bland í þeim.
