Þetta kemur fram í umfjöllun norska miðilsins VG. Þar kemur fram að tvíeykið, hin 66 ára gamla Elisabeth Andreassen og hinn 68 ára gamla Hanne Krogh hafi aldrei verið sprækari og verði meðal fimm keppenda í norsku undankeppninni. Upphaflega áttu þeir að vera sjö áður en tveir drógu sig til baka.
Bobbysocks mæta í undankeppnina með lagið Joyful. Þær segja í samtali við norska miðilinn að það hafi aldrei verið betri tími en nú til að taka aftur þátt í keppninni, enda rosaleg tímamót í ár. Þær stöllur sigruðu keppnina árið 1985.
Slógu í gegn í Vetrargarðinum
Síðan þá hafa þær farið mikinn í norska tónlistarheiminum í sitthvoru lagi. Þær sáu ekki fram á að taka einhvern tímann aftur þátt í keppninni, þar til þær áttuðu sig á því að í ár væri afmælisár og slétt fjörutíu ár síðan þær sigruðu keppnina.
Listi yfir keppendur var birtur í dag í norskum miðlum. Þar vekur mesta athygli fyrir utan stórtíðindin af Bobbysocks að glamrokkararnir í Wig Wam mæta aftur til leiks í keppnina. Sveitin fagnar tuttugu ára afmæli í ár en hún tók þátt með lagið In my dreams árið 2005. Lagið naut mikilla vinsælda hér á landi og slógu rokkararnir í gegn í Vetrargarðinum í Smáralind sumarið eftir þegar þeir sóttu klakann heim.