Erlent

Mikið sjónar­spil eftir að Starship sprakk

Samúel Karl Ólason skrifar
Starship geimfarið sprakk í loft upp snemma eftir geimskot í gærkvöldi og brak úr því olli miklu sjónarspili þegar það brann upp í gufuhvolfinu.
Starship geimfarið sprakk í loft upp snemma eftir geimskot í gærkvöldi og brak úr því olli miklu sjónarspili þegar það brann upp í gufuhvolfinu. AP/Skjáskot

Starfsmenn geimfyrirtækisins SpaceX gerðu í gærkvöldi nýja tilraun með Starship geimfarið og eldflaugina Super Heavy. Geimskotið fór vel af stað en nokkrum mínútum eftir aðskilnað Starship og Super Heavy í háloftunum sprakk geimskipið í loft upp og leiddi það til mikils sjónarspils.

Eldflaugin, sem er á stærð við Hallgrímskirkjuturn, sneri þó aftur til jarðar þar sem það var gripið með vélarmi. Var það í annað sinn sem slíkt tekst.

Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.

Saman sett er stæðan 120 metrar á hæð. Super Heavy eldflaugin er búin 33 Raptor hreyflum sem brenna metan og fljótandi súrefni.

Starship hafði flogið í um átta og hálfa mínútu þegar samband við geimskipið slitnaði og virðist sem að fyrir það hafi slokknað á hreyflum Starship. Þegar skipið sprakk var það í um 146 kílómetra hæð á um 21.317 kílómetra hraða.

Elon Musk, eigandi SpaceX, segir fyrstu vísbendingar gefa til kynna að eldsneytisleki hafi leitt til sprengingarinnar.

Um borð í geimskipinu voru tíu Starlink-gervihnattalíkön og stóð til að gera tilraun með þau og Starship á braut um jörðu. SpaceX hefur flutt þúsundir slíkra gervihnatta á braut um jörðu með Falcon 9 eldflaugum fyrirtækisins en vonir eru bundnar við að hægt verði að fjölga gervihnöttunum mun meira með því að nota Starship.

Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar. Nota á Starship og Super Heavy til að flytja menn og birgðir til tunglsins og jafnvel lengra út í geim með mun minni tilkostnaði en aðrir geta gert.

Þetta var sjöunda tilraunaskotið með Starship og Super Heavy en forvarsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) hafa gert samkomulag við SpaceX um að nota Starship til að lenda geimförum á tunglinu seinna á þessum áratug.

Brakið úr Starship sást víða í gærkvöldi og kannski sérstaklega í Karíbahafinu. Fólk þar birti myndbönd á netinu í gær sem fönguðu vel hve mikið sjónarspil um var að ræða.


Tengdar fréttir

Varar Repúblikana við að standa í vegi hans og Trumps

Elon Musk, auðugasti maður heims, hefur varað þingmenn Repúblikanaflokksins við því að reyna að standa í vegi þeirra sem Donald Trump, verðandi forseti, tilnefnir í embætti. Annars muni hann beita auðæfum sínum og áhrifum gegn þeim.

Auðjöfur og einkageimfari mun stýra NASA

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í kvöld að hann ætlaði að tilnefna auðjöfurinn Jared Isaacman sem yfirmann Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA). Auðjöfurinn hefur verið viðloðinn geimiðnað Bandaríkjanna og fór meðal annars í fyrstu borgaralegu geimgönguna, fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×