Onana með skelfi­leg mis­tök þegar United tapaði enn og aftur fyrir Brighton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana færði Brighton mark á silfurfati.
André Onana færði Brighton mark á silfurfati. getty/James Gill

Þriðja tímabilið í röð vann Brighton sigur á Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 1-3, Mávunum í vil.

Yankuba Minteh kom Brighton yfir strax á 5. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Karou Mitoma.

Á 23. mínútu jafnaði Bruno Fernandes metin úr vítaspyrnu sem dæmd var á Carlos Baleba fyrir brot á Joshua Zirkzee. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Brighton var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 60. mínútu kom Mitoma liðinu yfir eftir sendingu frá Minteh sem endurgalt greiðann frá því í fyrsta markinu. Skömmu áður hafði mark verið dæmt af Joao Pedro, framherja Brighton, eftir skoðun á myndbandi.

Þegar fjórtán mínútur voru til leiksloka átti Yasin Ayari fyrirgjöf sem André Onana missti afar klaufalega fyrir fætur Georginio Rutter sem skoraði þriðja mark Brighton. 

Fleiri urðu mörkin ekki og gestirnir fögnuðu sætum sigri. Með honum komst Brighton upp í 9. sæti deildarinnar. United er í 13. sætinu en liðið hefur tapað sex af síðustu níu deildarleikjum sínum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira