Englandsmeistarar Manchester City áttu ekki í neinum vandræðum með nýliða Ipswich í ensku úrvalsdeildinni í dag en City-menn léku við hvurn sinn fingur og unnu að lokum öruggan og þægilegan 6-0 sigur.
Heimamenn byrjuðu leikinn ágætlega en þegar Phil Foden skoraði fyrsta mark gestanna á 27. mínútu brustu allar flóðgáttir. Mörkin urðu að lokum sex og hefðu hæglega getað orðið fleiri en Pep Guradiola gerði alls fimm skiptingar á sínu liði enda þétt leikjadagskrá framundan hjá City.
Erling Haaland fagnaði nýjum risasamningi sínum með marki en þrátt fyrir að hægst hafi töluvert á markaskorun hans miðað við hvernig þau komu á færibandi í haust er hann engu að síður næstmarkahæstur í deildinni með 17 mörk, einu marki minna en Mohamed Salah.