Ótrú­leg endur­koma Börsunga

Börsungar fagna.
Börsungar fagna. Alex Pantling/Getty Images

Eftir að vera 3-1 og 4-2 undir á útivelli gegn Benfica tókst Barcelona á undraverðan hátt að kreista út sigur í blálokin. Lokatölur á Estádio da Luzí Lissabon 4-5.

Heimamenn trúðu vart sínum eigin augum þegar Vangelis Pavlidis kom þeim yfir á 2. mínútu eftir sendingu Álvaro Carreras. Gestirnir frá Katalóníu brugðust vel við og Robert Lewandowski jafnaði metin af vítapunktinum rúmum tíu mínútum síðar. 

Þá var komið að Pavlidis á nýjan leik - þökk sé hauskúpuleik Wojciech Szczęsny - í marki gestanna. Fyrst óð markvörðurinn úr marki sínu og negldi Alejandro Balde, vinstri bakvörð Barcelona, niður sem þýddi að Pavlidis gat rölt einn og óáreittur með knöttinn í netið. Szczęsny fékk síðan á sig vítaspyrnu sem Pavlidis skoraði þriðja mark Benfica úr þegar hálftími var liðinn.

Vangelis Pavlidis hélt að hann væri að fara upplifa eitt besta fótboltakvöld lífs síns. Annað kom á daginn.EPA-EFE/TIAGO PETINGA

Staðan 3-1 í hálfleik en Raphinha minnkaði muninn fyrir Barcelona á 64. mínútu þegar markvörður Benfica, Anatoliy Trubin, átti sendingu beint í höfuð hans og þaðan í netið. Einkar klaufalegt og gestirnir komnir inn í leikinn á ný. 

Brasilíumaðurinn átti svo eftir að koma aftur við sögu en fyrst varð Ronald Araújo fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Benfica því komið 4-2 yfir. Á 78. mínútu var þriðja vítaspyrna leiksins dæmd og hana fengu gestirnir. Lewandowski skoraði á nýjan leik og Börsungar komnir inn í leikinn. 

Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka jafnaði Eric Garcia metin og á sjöttu mínútu uppbótartíma - eftir að Benfica hafði sent alltof marga leikmenn fram í hornspyrnu undir lok leiks - stakk Raphinha hinn unga vinstri bakvörð Carreras og tryggði Barcelona ótrúlegan sigur.

Eftir sigurinn er Barcelona í 2. sæti með 18 stig að loknum sjö umferðum, þremur minna en topplið Liverpool. Benfica er í 18. sæti með 10 stig.

Aðeins ein umferð er eftir af hefðbundinni deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Þá fara efstu átta liðin beint í 16-liða úrslit meðan liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira