Sport

Segir brons­verð­laun sín vera að breytast í gull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tara Babulfath með bronsverðlaun sín eftir verðlaunaafhendinguna á Ólympíuleikunum í París.
Tara Babulfath með bronsverðlaun sín eftir verðlaunaafhendinguna á Ólympíuleikunum í París. EPA-EFE/DANIEL IRUNGU

Tara Babulfath varð í fyrra fyrsta sænska júdókonan til að vinna verðlaun á Ólympíuleikum. Hún vann þá brons í 48 kílóa flokki en afrekskonan sagði skondna sögu af verðlaunapeningi sínum á uppskeruhátíð sænskra íþrótta.

Babulfath fékk verðlaun á Idrottsgalan fyrir að vera besti nýliðinn í sænskum íþróttum á árinu 2024.

Það þekkist vissulega í sögunni að bronsverðlaunahafar fái á endanum gull ef keppendurnir fyrir ofan þá falla á lyfjaprófi. Það er samt eitthvað allt annað þegar bronsverðlaunin breytast bókstaflega í gull.

Babulfath sagði slíka sögu af verðlaunapeningi sínum. „Hann er á góðri leið með að breytast í gull,“ sagði Tara Babulfath við Aftonbladet.

Fréttir hafa borist af vandræðum fólks með verðlaunapeninga sína frá því á Ólympíuleikunum í París.

Verðlaunapeningarnir eru að ryðga og flagna en það eru sérstaklega bronsverðlaunapeningarnir sem eldast afar illa.

Alþjóðaólympíunefndin hefur lofað íþróttafólkinu nýjum verðlaunapeningum en það er ekkert víst að Babulfath vilji skipta þessum út.

„Hann er greinilega að undirbúa sig fyrir Los Angeles og lítur betur og betur út með hverjum deginum,“ sagði hin nítján ára gamla júdókona í léttum tón.

Tara Babulfath á Idrottsgalan þar sem hún var valin nýliði ársins.Getty/ Michael Campanella



Fleiri fréttir

Sjá meira


×