Fótbolti

Orri Steinn kom ekki við sögu í tapi Sociedad

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson kom ekki við sögu.
Orri Steinn Óskarsson kom ekki við sögu. Getty Images/Octavio Passos

Real Sociedad steinlá fyrir Lazio í Evrópudeild karla í knattspyrnu. Landsliðsframherjinn Orri Steinn Óskarsson mátti þola það að sitja á bekknum allan leikinn sem Lazio vann 3-1.

Heimamenn í Lazio byrjuðu frábærlega og voru komnir yfir eftir aðeins fimm mínútna leik. Mario Gila með markið eftir sendingu Taty Castellanos. Það hafði svo verið dæmt mark af heimaliðinu þegar gestirnir fóru úr öskunni í eldinn á 30. mínútu. Þá fékk Aihen Muñoz sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Það nýttu heimamenn sér til hins ítrasta. Mattia Zaccagni kom þeim 2-0 yfir eftir undirbúning Gustav Isaksen áður en Castellanos bætti þriðja markinu við eftir sendingu Nuno Tavares. Staðan 3-0 í hálfleik og sigurinn svo gott sem kominn í hús. Ander Barrenetxea minnkaði muninn fyrir gestina undir lok leiks en nær komust þeir ekki, lokatölur 3-1.

Elías Rafn Ólafsson er meiddur og var ekki með Midtjylland þegar liðið vann 2-0 útisigur á Ludogorets. Eggert Aron Guðmundsson kom ekki við sögu þegar Elfsborg vann frækinn 1-0 sigur á Nice. Sömu sögu er að segja af Kristian Nökkva Hlynssyni er Ajax tapaði 1-0 fyrir RFS.

Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppni Evrópudeildarinnar eru öll Íslendingaliðin með 10 stig. Ajax er í 16. sæti og í 18. til 20. sæti eru Sociedad, Midtjylland og Elfsborg.

Deildarkeppninni lýkur eftir næstu umferð. Þá fara efstu átta liðin beint í 16-liða úrslit á meðan liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×