Erlent

Sækist eftir sjöunda kjör­tíma­bilinu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lúkasjenkó, 70 ára, var 39 ára þegar hann var kjörinn forseti Belarús í fyrstu lýðræðislegu kosningum landsins eftir að þjóðin fékk sjálfstæði frá Sovíetríkjunum. 
Lúkasjenkó, 70 ára, var 39 ára þegar hann var kjörinn forseti Belarús í fyrstu lýðræðislegu kosningum landsins eftir að þjóðin fékk sjálfstæði frá Sovíetríkjunum.  EPA

Forsetakosningar fara fram í Belarús í dag. Allt bendir til þess að Alexander Lúkasjenkó, sitjandi forseti, nái endurkjöri en hann hefur gegnt embættinu frá 1994. 

Kosningarnar eru þær fyrstu síðan hörð mótmæli brutust út eftir endurkjör Lukasjenkó árið 2020. Stjórnarandstaðan í landinu og yfirvöld vestrænna ríkja gagnrýndu úrslit kosninganna og sökuðu forsetann um að hagræða úrslitunum. Meira en þúsund manns sitja enn í fangelsi vegna mótmælanna, að því er kemur fram í umfjöllun Guardian. Samkvæmt landslögum Belarús er öll gagnrýni á hendur forsetanum ólögleg. 

Belarús er undir stjórn Lukasjenkó í bandalagi við Rússland en forsetinn hefur lánað hersveitum Rússa landsvæði undir árásir inn í Úkraínu frá árinu 2022. 

Pólitískir andstæðingar Lúkasjenkó eru allir annað hvort í fangelsi eða útlegð frá landinu. Tugir þúsunda Hvítrússa hafa flúið frá Belarús frá því að Lúkajenkó náði endurkjöri árið 2020. Í frétt Guardian segir að mótframbjóðendur Lúkasjenkó hafi verið valdir til þess að láta kosningarnar líta út fyrir að vera lýðræðislegar. Fáir þekki til þeirra. 

Lúkasjenkó kom fram á kosningafundi á föstudag. „Allir okkar andstæðingar og óvinir, haldið ekki í vonina. Það sem gerðist árið 2020 verður aldrei endurtekið,“ sagði hann í ræðu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×