Enski boltinn

Man. City eyddi jafn­miklu og hin ní­tján saman­lagt

Sindri Sverrisson skrifar
Nico Gonzalez er mættur til Manchester City frá Porto en hann er uppalinn hjá Barcelona.
Nico Gonzalez er mættur til Manchester City frá Porto en hann er uppalinn hjá Barcelona. Getty/Jose Manuel Alvarez Rey

Ensku úrvalsdeildarfélögin, með Englandsmeistara Manchester City í broddi fylkingar, vörðu mun meira fjármagni í leikmenn í vetrarglugganum en félög í öðrum fótboltadeildum.

Félagaskiptaglugganum var lokað í gærkvöld en áður en að því kom höfðu ensku félögin samtals eytt um það bil 370 milljónum punda í leikmenn, samkvæmt frétt BBC. Það nemur samtals um 65 milljörðum króna.

Manchester City keypti fjóra leikmenn fyrir samtals um 180 milljónir punda, og eyddi því um það bil sömu upphæð í leikmenn og öll hin 19 félögin í ensku úrvalsdeildinni til samans. Þau nýttu mörg hver lánssamninga til að styrkja sína hópa fyrir seinni hluta leiktíðarinnar.

City festi kaup á miðjumanninum Nico Gonzalez, sem uppalinn er í La Masia hjá Barcelona, frá Porto fyrir 50 milljónir punda í gær. Áður hafði félagið keypt Omar Marmoush frá Frankfurt fyrir 59 milljónir punda, Vitor Reis frá Palmeiras fyrir 29,6 milljónir punda og Abdukodir Khusanov frá Lens fyrir 33,6 milljónir punda. Þá keypti félagið Claudio Echeverri, U17-landsliðsmann Argentínu, frá River Plate fyrir 12,5 milljónir punda en lánaði hann strax aftur til River Plate.

Eftir að hafa haldið að sér höndum síðasta sumar, og selt Julian Alvarez til Atlético Madrid og Joao Cancelo til Al-Hilal, er nettó eyðsla City vegna þessa keppnistímabils 67 milljónir punda. Félagið hefur hins vegar ekki eytt jafnmiklu í leikmenn í einum glugga eins og nú, síðan 225 milljónir punda fóru í leikmenn sumarið 2017.

Á eftir ensku úrvalsdeildinni eyddu félög í ítölsku A-deildinni mestu í leikmenn en þó helmingi minna, eða jafnvirði tæplega 184 milljóna punda. Frönsku félögin vörðu 169 milljónum punda í leikmenn og í 4. sæti er sádi-arabíska deildin því félögin þar vörðu 144 milljónum punda í leikmenn, aðeins meira en félögin í þýsku deildinni. Spænsku félögin eyddu aðeins tæplega 22 milljónum punda í leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×