Íslenski boltinn

Kristófer endur­nýjar kynnin við Óskar Hrafn í KR

Aron Guðmundsson skrifar
Kristófer Orri Pétursson fer af Seltjarnarnesi yfir í Vesturbæinn
Kristófer Orri Pétursson fer af Seltjarnarnesi yfir í Vesturbæinn Mynd:KR

Sóknarmaðurinn Kristófer Orri Pétursson hefur skrifað undir eins árs samning við Bestu deildar lið KR. Þetta kemur fram í tilkynningu á samfélagsmiðlum félagsins.

Hinn 26 ára gamli Kristófer er uppalinn í Gróttu og hefur þar spilað allan sinn feril. Hann spilaði 22 leiki fyrir félagið í Lengjudeildinni á síðasta tímabili og skoraði þrjú mörk en Grótta féll úr deildinni ásamt Dalvík/Reyni.

Hann var hluti af liði Gróttu sem spilaði í efstu deild árið 2020 og lék hann átján leiki í deildinni það tímabilið. 

Kristófer á alls 200 leiki að baki á meistaraflokksferli sínum, flestir þeirra (114) koma úr næst efstu deild. 

KR-ingar hafa verið öflugir á leikmannamarkaðnum til þessa og hefur liðið litið vel út á undirbúningstímabilinu, meðal annars unnið Reykjavíkurmótið. Framundan er fyrsta heila tímabil KR undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar sem þekkir vel til Kristófers sem spilaði undir hans stjórn á sínum tíma hjá Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×