Enski boltinn

Trent úr leik en mætir mögu­lega Guð­laugi Victori

Sindri Sverrisson skrifar
Trent Alexander-Arnold fór meiddur af velli gegn Bournemouth um helgina.
Trent Alexander-Arnold fór meiddur af velli gegn Bournemouth um helgina. Getty/Catherine Ivill

Trent Alexander-Arnold, bakvörður Liverpool, er meiddur í læri og mun ekki taka þátt á morgun í seinni leiknum við Tottenham, í undanúrslitum enska deildabikarsins í fótbolta.

Þetta staðfesti Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag. 

Tottenham er 1-0 yfir í einvíginu eftir sigur á heimavelli en leikurinn annað kvöld, sem sýndur verður á Vodafone Sport, fer fram á Anfield.

Slot segir mögulegt að Alexander-Arnold jafni sig í tæka tíð til að geta spilað bikarleikinn við Plymouth, lið Guðlaugs Victors Pálssonar, á sunnudaginn. Liverpool mætir svo Everton í frestuðum grannaslag á miðvikudaginn eftir viku.

„Hann mun missa af Tottenham-leiknum. Við verðum að sjá til hvort að hann spili á sunnudaginn en það sem við vitum núna er að hann verður ekki til taks á morgun,“ sagði Slot í dag.

Óþarfi að fjárfesta

Alexander-Arnold fór meiddur af velli á 70. mínútu í leiknum við Bournemouth á laugardaginn.

„Hann yfirgaf völlinn með smásársauka í fætinum en hann er strax kominn á æfingasvæðið, ekki með liðinu heldur endurhæfingarþjálfara, svo við skulum sjá hve langan tíma þetta tekur,“ sagði Slot.

Conor Bradley kom inn á fyrir Alexander-Arnold í leiknum við Bournemouth, og byrjaði fyrri leikinn við Tottenham, og er líklegur til þess að spila á morgun en Joe Gomez er einnig til taks á ný eftir meiðsli.

Liverpool, sem er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og varð efst í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu, hafði hægt um sig í félagaskiptaglugganum í janúar og keypti engan leikmann.

„Ég hef oft sagt það að við erum með mjög góðan hóp og það nægir að horfa á stigatöfluna til að sjá að leikmennirnir standa undir því trausti sem við berum til þeirra. Og, fyrir utan Trent sem verður frá keppni í nokkra daga, þá var ekki mikið um erfið meiðsli á þeim tíma þegar glugginn var opinn,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×