Fótbolti

Jóhann Berg lagði upp í mikil­vægum sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson fagnaði sigri í Sádi-Arabíu í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson fagnaði sigri í Sádi-Arabíu í dag. Getty/Ahmad Mora

Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp eitt marka Al-Orobah í mikilvægum 4-2 sigri liðsins á Al-Wehda í sádísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Al-Orobah var í 16. sæti deildarinnar, efsta fallsæti deildarinnar, fyrir leik dagsins við Al-Wehda á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Gestirnir voru aðeins stigi frá Al-Orobah og ljóst að sigurliðið myndi fara upp úr fallsæti.

Jóhann Berg spilaði í holunni fyrir aftan fremsta mann og lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Englendinginn Brad Young eftir aðeins þriggja mínútna leik. Saad Bguir jafnaði strax á áttundu mínútu en vítaspyrnumark Sýrlendingsins Omar Al-Somah kom Orobah aftur yfir undir lok fyrri hálfleiks.

Al-Somah skoraði öðru sinni eftir hléið og reyndist annað mark Saad Bguir lítið annað en sárabót fyrir Al-Wehda þar sem Spánverjinn Cristian Tello innsiglaði 4-2 sigur Al-Orobah með marki á áttundu mínútu uppbótartíma.

Með sigrinum stekkur Al-Orobah úr 16. sæti upp í það þrettánda með 17 stig, þremur frá fallsæti. Liðin í kring eiga leik inni er 19. umferð deildarinnar heldur áfram um helgina.

Sigurinn er langþráður enda Al-Orobah tapað fimm af síðustu sex og um að ræða fyrsta deildarsigur liðsins síðan í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×