Veður

Gæti sést til eldinga á vestan­verðu landinu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Veðurfræðingur segir ekki útilokað að það sjáist til eldinga á vestanverðu landinu. 
Veðurfræðingur segir ekki útilokað að það sjáist til eldinga á vestanverðu landinu.  Skjáskot/Live from Iceland

Smálægð verður á austurleið norður af landinu í dag og henni fylgir suðvestanátt. Víða verða 8 til 15 metrar á sekúndu. Á vestanverðu landinu verða él og segir í hugleiðingum veðurfræðings að ekki sé útilokað að það sjáist til eldinga þar á stöku stað.

Dálítil snjókoma austanlands, en styttir upp þar fyrir hádegi. Hiti um eða undir frostmarki. Dregur úr vindi og styttir upp seinnipartinn, og kólnar í kvöld.

Í nótt hvessir aftur og á morgun verður sunnan 8 til 15 metrar á sekúndu, en 15 til 20 í vindstrengjum á norðvestanverðu landinu. Þá verður slydda eða snjókoma með köflum á sunnan- og vestanverðu landinu, en síðar rigning. Úrkomulítið norðaustanlands. Hlýnandi veður, hiti 3 til 7 stig seinnipartinn.

Á mánudag verður sunnan og suðvestan 8 til 15 metrar á sekúndu og dálítil rigning eða súld, en léttskýjað að mestu norðaustantil. Áfram verður svo milt í veðri.

Nánar um veður á vef Veðurstofunnar og færð vega á vef Vegagerðarinnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Sunnan 8-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum á norðvestanverðu landinu. Súld eða rigning með köflum, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hlýnandi veður, hiti 3 til 8 stig síðdegis.

Á mánudag:

Sunnan 5-13, en heldur hvassari vestast á landinu. Dálítil væta, en þurrt að kalla a Norðurlandi. Hiti 2 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Austlæg átt 5-13. Bjart að mestu og hiti nálægt frostmarki fyrir norðan, en lítilsháttar rigning eða súld og allt að 5 stig hiti á sunnanverðu landinu.

Á miðvikudag:

Austanátt og rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 0 til 5 stig, en víða vægt frost á norðvestanverðu landinu.

Á fimmtudag:

Austanátt og rigning eða slydda með köflum, en snjókoma á Vestfjörðum. Þurrt að mestu norðaustanlands. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust sunnan- og vestanlands.

Á föstudag:

Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt. Bjart með köflum, en dálítil él á suðaustanverðu landinu. Kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×