Innlent

Kýldu dreng í Mjóddinni og reyndu að stela úlpu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Strætóskýlið við Mjódd.
Strætóskýlið við Mjódd. Vísir/Vilhelm

Móðir hafði samband við lögreglu vegna líkamsárásar á son hennar í Mjóddinni. Samkvæmt móðurinni voru þrír drengir sem réðust á son hennar með höggum í andlitið og reyndu að hafa af honum úlpuna sem hann var í en án árangurs.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þar segir að drengurinn sé með áverka í andliti eftir árásina. Lögreglan hafi haft uppi á einum sakborninganna, en allir drengirnir séu undir sakhæfisaldri. Málið sé í rannsókn.

Veistu meira um málið? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is.

Skiptu um sæti en báðir án réttinda

Lögregla stöðvaði einnig bíl við umferðareftirlit, en þegar bíllinn stöðvaði virtust ökumaður og farþegi skipta um sæti.

Báðir virtust undir áhrifum fíkniefna og voru þeir báðir handteknir. Báðir voru sviptir ökuréttindum þar sem hnífur og meint fíkniefni fundust á öðrum þeirra.

Þá var einnig brotist inn í fyrirtæki og fjármunum stolið úr afgreiðslukassa. Öryggismyndavélar voru á staðnum og náðu þjófnaðinum á mynd.

Einnig gekk maður að lögreglubifreið í miðborginni hrópandi fúkyrðum að lögreglumönnum. Hann gaf lögreglunni óviðeigandi merki með þumli og löngutöng, og barði svo í lögreglubílinn. 

Maðurinn var handtekinn vegna brots á lögreglusamþykkt, en við öryggisleit á honum fannst meint LSD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×