Erlent

Hélt hann hefði verið étinn af hval

Lovísa Arnardóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu. Adrían að sigla og svo er hvalurinn kominn og hann horfinn.
Skjáskot úr myndbandinu. Adrían að sigla og svo er hvalurinn kominn og hann horfinn. YouTube

Hnúfubakur tók kajakræðara í munn sinn í stutta stund við strendur Síle síðustu helgi. Atvikið náðist á myndband. Maðurinn segist hafa verið hræddur um líf sitt og föður síns. 

Adrián Simancas var úti á kajak með föður sínum síðustu helgi nærri Magellansundi í Síle þegar hnúfubakur kom skyndilega upp á yfirborðið og tók Adrían og kajakinn hans með sér niður í nokkrar sekúndur, og sleppti honum svo.

Dell, faðir Adrían, var í aðeins nokkurra metra fjarlægð og náði atvikinu á myndband.

„Vertu rólegur, vertu rólegur,“ má heyra Dell segja í myndbandinu eftir að hvalurinn sleppti syni hans úr munni sínum.

„Ég hélt ég væri dauður,“ er haft eftir Adrían í viðtali við AP en hægt er að horfa á viðtalið að neðan. 

„Ég hélt hann hefði étið mig, að hann hefði gleypt mig,“ segir hann. 

Hann segir þessar nokkru sekúndur þar sem hann var í gini hvalsins hrikalegar en að hann hafi ekki orðið raunverulega hræddur fyrr en hann kom aftur upp á yfirborðið. Þá hafi hann verið hræddur um að hvalurinn myndi meiða föður hans eða að hann myndi hverfa ofan í kalt vatnið.

Hann náði þó að synda til föður síns og fékk svo aðstoð stuttu síðar. Báðir komust þeir svo heilir á haldi í land aftur.

Magellansund er í um 2.600 kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Síle, Santíagó, og er vinsæll ferðamannastaður. Í frétt Guardian segir að þó svo að árásir hvala á mannfólk séu afar sjaldgæfar í Síle hafi fleiri hvalir drepist síðustu ár vegna árekstra við flutningaskip og æ algengara sé að þeir strandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×