Þeir sem vilja berja styttuna augum þurfa að flýta sér því hún verður í nokkra daga á danska Þjóðminjasafninu, í kjölfar þess að Danir unnu Króata í úrslitaleik HM í byrjun þessa mánaðar.
Í kjölfarið verður styttan hins vegar sett í geymslu í bankahólfi á Sjálandi.
„Hún verður geymd í bankahólfi. Annars yrðu tryggingarnar of dýrar. Það væri allt of dýrt að hafa hana til sýnis. Við erum með tryggingu en í henni felst að gripurinn verði geymdur í bankahólfi,“ segir Jan Kampmann, starfandi formaður danska handknattleikssambandsins, við Ekstra Bladet.
Aðspurður hvort það væri leyndarmál hvar styttan væri geymd svaraði hann glottandi: „Ég er ekki með heimilisfangið.“
Metin á 130 milljónir króna
Ljóst er að forráðamönnum IHF væri að mæta ef styttan skyldi týnast:
„Þegar bikarinn var keyptur heyrði ég að hann hefði kostað um 900.000 evrur [rúmar 130 milljónir íslenskra króna],“ sagði Kampmann og bætti við:
„Við höfðum ímyndað okkur að við fengjum eftirlíkingu sem hægt væri að hafa til sýnis en svo var ekki.“
Danir hafa orðið heimsmeistarar fjórum sinnum í röð en þeir lönduðu sínum fyrsta heimsmeistaratitli árið 2019. Síðustu heimsmeistarar á undan Dönum voru Frakkar sem unnu titilinn 2015 og 2017. Frakkland hefur unnið titilinn oftast allra eða sex sinnum.