Enski boltinn

Gleymdi að gefa konunni gjöf á Valentínusar­daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Merino fagnar öðru af tveimur mörkum sínum fyrir Arsenal á móti Leicester City um helgina. Til vinstri er eiginkona hans Lola Liberal.
Mikel Merino fagnar öðru af tveimur mörkum sínum fyrir Arsenal á móti Leicester City um helgina. Til vinstri er eiginkona hans Lola Liberal. Getty/Shaun Botterill/Jean Catuffe

Liðsfélagar og stuðningsmenn Arsenal voru mjög ánægðir með Mikel Merino um helgina en hefur eiginkona hans sömu sögu að segja?

Merino hafði komið Arsenal til bjargar og haldið lífi í titilvonum félagsins.

Staðan var 0-0 í leik Leicester City og Arsenela þegar Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, sendi nafna sinn og landa inn á völlinn á 69. mínútu.

Það er mikið framherjahallæri hjá Arsenal liðinu enda margir sóknarmenn félagsins meiddir.

Mikel Merino spilaði því framar á vellinum en hann er kannski vanur. Hann var fljótur að launa Arteta traustið. Fyrst skoraði hann á 81. mínútu og sex mínútum síðar var hann búinn að bæta við öðru marki.

 Mikel Merino með eiginkonu sinni Lolu Liberal eftir leik með spænska landsliðinu.Getty/Jean Catuffe

Hann skoraði þarna jafnmörg mörk á rúmum tuttugu mínútu og hann hafði gert í sextán leikjum í ensku úrvalsdeildinni til þessa.

Allir hjá Arsenal voru því í skýjunum með Spánverjann eftir leik en hann sjálfur viðurkenndi stór mistök í viðtölum eftir leik.

„Ég gleymdi að gefa eiginkonunni gjöf á Valentínusardaginn og ég ætla því að tileinka henni þessa tvennu,“ sagði hinn 28 ára gamli Merino eftir leikinn.

Eiginkona Merino er fyrirsætan Lola Liberal. Þau hafa bara verið gift síðan í júní í fyrra og þetta var því fyrsti Valentínusardagur þeirra sem hjón.

Hvort hún sætti sig við það að mörkin séu nógu góð gjöf á degi sem þessum er ekki vitað. Það er hins vegar öruggt að það er mun léttara yfir Merino núna eftir að hafa fengið talsverða gagnrýni síðan Arsenal keypti hann frá Real Sociedad í ágúst i fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×