Lífið

Hanna húfu til styrktar björgunar­sveitunum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Svanhvít Helga Jóhannesdóttir, félagi í Björgunarsveitinni Kára, með nýju húfuna.
Svanhvít Helga Jóhannesdóttir, félagi í Björgunarsveitinni Kára, með nýju húfuna. Aðsend

66°Norður hefur hannað ullarhúfu í samstarfi við Landsbjörg til styrktar björgunarsveitum landsins. Húfan fer í sölu í dag en allur ágóði af sölunni rennur til styrktar Landsbjörgu.

Landsbjargarhúfan er úr ullarblöndu og kemur í takmörkuðu upplagi. Innblástur fyrir mynstur húfunnar er hálendi Íslands og fjallagarðar landsins. Mynstrið er unnið út frá loftmynd af fjallaskaga á norðanverðu Íslandi árið 1999, árið sem Landsbjörg var stofnuð. Þetta er annað árið í röð sem 66°Norður og Landsbjörg hanna saman húfu til styrktar björgunarsveitunum.

Í tilkynningu kemur fram að ríflega fjögur þúsund manns séu á útkallsskrá björgunarsveitanna sem starfa um allt land undir merkjum Landsbjargar.

„Starfið í björgunarsveitinni er ekki aðeins gefandi vegna þess að hægt er að bjarga mannslífum heldur er það líka mikilvægt samfélagslegt hlutverk. Við stöndum saman og styðjum hvort annað,“ segir Svanhvít Helga Jóhannesdóttir sem er 31 árs en hún er virkur félagi í Björgunarsveitinni Kára.

Til þegar kallið kemur

Svanhvít býr í Öræfum þar sem hún starfar sem leiðsögumaður og kennari. Hún er alltaf tilbúin í björgunarleiðangra þegar kallið kemur. Svanhvít segir að það að búa í Öræfum þýði að lifa í nálægð við sveiflur náttúrunnar með klettaklifri á sumrin og ísklifri eða skíðamennsku á veturna. Reynsla hennar af vinnu á jöklum nýtist henni vel í björgunarsveitarstörfum.

Landsbjargarhúfan fer í sölu í dag í vefverslun 66°Norður ásamt völdum verslunum 66°Norður í Faxafeni, Smáralind, Kringlunni og á Laugavegi sem og á heimasíðu Landsbjargar.


Tengdar fréttir

Björgunar­sveitir í viðbragðs­stöðu: Verk­efni björgunar­sveita um 300 í gær

Björgunarsveitir sinntu um 300 verkefnum í gær í veðurofsanum sem gekk yfir landið, þar af voru um 200 á höfuðborgarsvæðinu. Slökkvilið sinnti mörgum verkefnum vegna vatnstjóns. Viðbragðsaðilar eru í viðbragðsstöðu vegna næstu lægðar sem fer nú yfir landið. Rauðar og appelsínugular viðvaranir eru í gildi eða munu taka gildi um nær allt land. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.