„En aldursbilið hjá okkur er líka 16-77 ára þannig að hjá okkur skiptir engu máli hversu gamalt fólk er, eða af hvaða kyni eða þjóðerni það er eða hvort fólk er í hlutastarfi með skerta starfsgetu. Heldur frekar hvort viðkomandi eigi vel við starfið og starfið eigi vel við viðkomandi,“ segir Vaka og bætir við:
„Í raun er stóra spurningin þá bara: Viltu vera memm?“
Vaka segir það alls ekki svo að þeir sem starfi í fullu starfi, séu endilega betri starfsmenn en aðrir.
Við eigum ekki að velta okkur svona mikið upp úr starfshlutfalli heldur miklu frekar vinnuframlaginu.
Við getum vel verið með starfsmann í hlutastarfi sem skilar meiri vinnu en starfshlutfallið segir til um.“
Þann 1.september næstkomandi verða breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér nýja hugsun sem ætlað er að leiði af sér meiri hvata til atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Aukin atvinnuþátttaka þessa hóps kallar á fjölgun hlutastarfa á vinnumarkaði.
Í dag og á morgun, rýnir Atvinnulífið í málin.
Hlutastörf og fjölbreytileikinn
Þegar breytingar verða á örorkulífeyriskerfinu næsta haust, má gera ráð fyrir að fleira fólk með skerta starfsgetu muni leita á vinnumarkaðinn á ný.
Margt af þessu fólki, er með góða reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu en hefur sökum til dæmis slysa eða sjúkdóma, horfið af vinnumarkaði um tíma. Tölur sýna hins vegar að oft tekur það langan tíma fyrir þennan hóp fólks að komast aftur á vinnumarkaðinn. Meðal annars vegna þess að hér vantar hlutastörf.
Fyrirséð er að fleira fólk þarf til starfa á vinnumarkaðinn næstu árin, en því til viðbótar má nefna að rannsóknir sýna að fólk er líklegra til að ná sér fyrr en ella, fái það tækifæri til að snúa aftur á vinnumarkaðinn.
Í viðtali Atvinnulífsins í gær við Söru Dögg Svanhildardóttur, sérfræðing hjá Vinnumálastofnun sem nú leiðir úrræðið Unndísi fyrir fólk með skerta starfsgetu, kom meðal annars fram að í sumum tilfellum eru fyrirtæki einfaldlega ekki að sjá þau tækifæri sem hlutastörf geta falið í sér.
Sem er viðfangsefni dagsins og eitt af því sem er áhugavert í samtali við Vöku hjá IKEA, sem hefur mikla reynslu af hlutastörfum, er að oftar en ekki setur Vaka fjölbreytileikann í samhengi við hlutastörfin.
„Umræðan er oft sú að það að fagna fjölbreytileikanum á vinnustöðum snúist um að halda vel utan um til dæmis fólk sem er af erlendu bergi brotið eða tilheyrir hinsegin samfélaginu. Það er samt bara hluti af fjölbreytileikanum,“ segir Vaka og bætir við:
„Það góða hér er samt það að þegar ég byrjaði að vinna hjá IKEA fyrir um tveimur árum síðan, var ég fljót að átta mig á því að hér þarf í rauninni ekkert að tala sérstaklega um að fagna fjölbreytileikanum. Það er svo löngu komið inn í menninguna hér að fólk er einfaldlega alls konar.“
Að fólk sé alls konar, er einmitt partur af því hvers vegna IKEA býður upp á svo mörg hlutastörf.
Hlutastörf eru einfaldlega ein leiðin til þess að mæta fólki.
Sumir vilja vinna minna, einfaldlega vegna þess að fólk vill minnka við sig vinnu.
Aðrir eru kannski með skerta starfsgetu og nýkomnir aftur á vinnumarkaðinn, enn aðrir eru með fötlun og síðan erum við með fjölmennan hóp af námsfólki sem er að vinna með skóla og svo framvegis.“
En er flókið að vera með mikið af hlutastörfum sem eru kannski alls konar?
„Nei, ef þú ert að spyrja mig þá myndi ég alltaf segja að það að mæta fólki og vera með fjölbreyttasta hópinn sé fyrirtækinu til hagsbóta og að bjóða upp á hlutastörf eru einfaldlega liður í því,“ segir Vaka og bætir við:
„Hlutastörfin eru liður í því að vera með alls konar fólk og eins og við lítum á þetta, þá er IKEA með sínum vörum og þjónustu að sinna viðskiptavinum sem eru alls konar fólk. Að vera með alls konar fólk í starfi gefur alltaf fleiri sjónarmið, skoðanir og fleira. Fjölbreytileikinn er því alltaf til hagsbóta og hlutastörfin eru liður í því.“
Annað sem Vaka nefnir eru fordómar.
„Inter IKEA gerir mjög miklar kröfur til sinna söluaðila um heim allan hvað varðar mannauðinn og þá ekki síst fjölbreytileikann. Áhersla hjá þeim og verkefni sem við þurfum einfaldlega að sinna og geta sýnt fram á að við stöndumst, er að hér sé ekkert til staðar sem kalla má faldir fordómar (e. hidden bias). Að bjóða upp á hlutastörf fyrir mismunandi hópa af mismunandi ástæðum er leið til þess að eyða slíkum fordómum.“

Praktísku málin
Hjá IKEA starfa um 450 manns. Mjög margir eru í 80% starfshlutfalli, en starfa þá í því sem kallast 3:2:2 vaktarfyrirkomulaginu.
Hjá IKEA skilgreinast störf sem hlutastörf ef þau nema 50% starfshlutfalli eða minna og hjá fyrirtækinu starfa 96 manns í slíkum hlutastörfum, eða sem nemur 22% af heildinni.
„Auðvitað eru mörg störf hjá okkur bundin við ákveðna viðveru, sérstaklega þjónustan í versluninni. En við erum með starfsfólk í störfum allan sólahringinn. Á næturnar er til dæmis fólk sem starfar í öryggisvörslu eða inni á birgðasviði þar sem verið er að taka á móti vörum og fleira,“ segir Vaka og bætir við:
„Heilt yfir erum við með 80 ólík störf hjá IKEA og það auðvitað hjálpar okkur líka í því að geta boðið upp á hlutastörf.“
Í þessu samhengi, má nefna að hjá IKEA starfar fólk í því sem kallast atvinna með stuðning en það er þá fólk með fötlun.
„Við höfum unnið með Vinnumálastofnun í þeim ráðningum og það hefur gengið vel,“ segir Vaka.
En hvað þýðir að vera í starfsnámi hjá IKEA?
„Það eru ráðningar sem við höfum meðal annars með sveitarfélögum og beinast að fólki með skerta starfsgetu, er í endurhæfingu og að snúa aftur á vinnumarkaðinn ,“ segir Vaka og bendir á að þetta sé svo sem ekkert ólíkt því sem Unndís-leiðin boðar nú fyrir fólk á hlutaörorku.
„Auðvitað þarf síðan að huga að ýmsum málum í þessu samhengi. Við erum til dæmis með mörg störf sem eru líkamlega erfið. Önnur störf kalla á að fólk þarf að standa mjög mikið. Svona störf henta ekkert endilega fólki sem er að jafna sig eftir slys. Á móti kemur að við erum líka með ýmiss önnur störf, til dæmis á skrifstofunni, sem gætu hentað og það er þá frekar hægt að huga að því.“

Vaka segir hlutastörf þó oft snúast um vinnutímann.
„Við erum með hlutastörf sem eru til dæmis önnur hver helgi og hjá okkur vinnur fólk líka sem byrjar seinni partinn en ekki fyrri partinn, það einfaldlega hentar sumum betur.“
Annað sem Vaka segir skipta miklu máli, er að starfsfólk sjái tækifærin til starfsþróunar. Sem getur líka skipt máli fyrir fólk í hlutastörfum.
„Við hvetjum til þess að starfsfólk hér prófi aðrar deildir innanhúss og horfum til þess að fólk sem þegar starfar hjá okkur, geti þróast í starfi þegar ný störf bjóðast. Enda eigum við mýmörg dæmi um að fólk sem til dæmis hefur byrjað hjá okkur í hlutastarfi en endar með að vinna hérna lengi í meira starfi,“ segir Vaka og bætir við:
,,Fyrir stuttu var ég til dæmis að hlusta á erindi frá einni sem vinnur hjá IKEA og hefur gert það lengi. En ætlaði sér bara að vinna hérna í svona eitt tvö ár eftir skóla!“
Í alla staði er það að minnsta kosti svo að Vaka hvetur fyrirtæki klárlega til að skoða valkosti fyrir starfsfólk í formi hlutastarfa.
Málið snýst alltaf um að finna gott fólk.
Og þá skiptir engu máli hversu gamalt fólk er, af hvaða kyni, hvort það vilji hlutastarf eða annað.
Ekkert af þessu eru atriði sem benda til þess að fólk sé verri starfskraftur.
Þvert á móti er það staðreynd að fjölbreytileikinn víkkar alltaf sjóndeildarhringinn okkar sem á endanum er betra fyrir reksturinn.“
Hér að neðan má sjá viðtal sem tekið var við Guðrúnu Hlín Þórarinsdóttur árið 2022, þá 75 ára. Guðrún er enn í dag elsti starfsmaður IKEA.