Enski boltinn

Hafa verið þrettán ár af lygum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sonia Bompastor tók við kvennaliði Chelsea eftir síðasta tímabil og hefur gert mjög góða hluti með liðið.
Sonia Bompastor tók við kvennaliði Chelsea eftir síðasta tímabil og hefur gert mjög góða hluti með liðið. Getty/Mike Hewitt

Sonia Bompastor hefur gert frábæra hluti með kvennalið Chelsea síðan hún tók við liðinu af Emmu Hayes. Á dögunum opinberaði hún leyndarmál fjölskyldunnar.

Bompastor sagði þá frá langtímasambandi sínu við aðstoðarkonu sína Camille Abily. Þær eiga fjögur börn saman.

Franskir fjölmiðlar eins og bæði L'Equipe og RMC hafa rætt við Bompastor í tilefni af útkomu ævisögu hennar, „A life in football“.

Í bókinni talar hún um einkalíf sitt í fyrsta skiptið. Hún ræddi við L'Equipe um þá ákvörðun hennar og Camille að segja frá fjölskylduhögum sínum í fyrsta skiptið.

„Að segja frá lífi mínu með Camille í fyrsta sinn. Að segja frá því að við séum í sambandi. Þetta hafa verið þrettán ár af lygum og okkur líður ekkert sérstaklega vel með það að opinbera þetta,“ sagði Bompastor við L'Equipe.

„Við höfum farið mjög leynt með þetta og við viljum fyrst og fremst fá að lifa fullkomlega venjulegu lífi,“ sagði Bompastor.

Bompastor er 44 ára gömul en lagði skóna á hilluna fyrir tólf árum eða árið 2013. Hún lék á sínum tíma 156 landsleiki fyrir Frakka og spilaði stærstan hluta ferils síns með Lyon.

Bompastor þjálfaði Lyon frá 2021 til 2024 og var þannig þjálfari liðsins þegar Sara Björk Gunnarsdóttir hrökklaðist frá franska félaginu eftir að félagið studdi hana ekki þegar hún varð ófrísk.

Kærasta hennar, Camille Abily, er fjórum árum yngri en þær léku saman hjá bæði Lyon og franska landsliðinu. Abily setti skóna upp á hilluna árið 2018 og var aðstoðarþjálfari Lyon frá 2019 til 2024. Hún fylgdi síðan Bompastor til Chelsea.

Báðar eru þær síðan í hópi leikjahæstu landsliðskvenna Frakka frá upphafi. Abily er í fimmta sæti en Bompastor í því áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×