Salah frá­bær og Liver­pool í kjör­stöðu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mohamed Salah er kominn með 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Mohamed Salah er kominn með 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Vísir/Getty

Liverpool er komið með ellefu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir nokkuð þægilegan sigur á Manchester City á útivelli í dag. Mohamed Salah hélt áfram að sýna að það eru ekki margir betri en hann í fótbolta í heiminum.

Eftir tap Arsenal í gær var ljóst að Liverpool gæti náð ellefu stiga forystu í úrvalsdeildinni með sigri í dag en City var í 4. Sæti fyrir leikinn og má ekki við því að tapa mikið af stigum í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

City byrjaði leikinn ágætlega, var meira með boltann og leitaði töluvert út í kantana til að reyna að skapa usla í vörn Liverpool. Það gekk hins vegar lítið og það var Liverpool sem náði frumkvæðinu á 14. mínútu. 

Mohamed Salah kom Liverpool í 1-0 eftir frábæra útfærslu á hornspyrnu Liverpool.Vísir/Getty

Alexis Mac Allister tók þá hornspyrnu á nærstöngina þar sem Dominik Szoboszlai flikkaði boltanum með fætinum áfram í teiginn og þar stóð Mohamed Salah einn og yfirgefinn og skaut boltanum í netið með viðkomu í varnarmanni. Beint af æfingasvæðinu og staðan orðin 1-0.

Eftir þetta var City meira með boltann en sóknarleikurinn steingeldur. Þeir skoruðu reyndar mark á 31. mínútu en Omar Marmoush var réttilega flaggaður rangstæður.

Þremur mínútum síðar átti Liverpool síðan góða sókn. Salah fékk boltann innfyrir vörnina hægra megin. Hann fann Szoboszlai í teignum sem tók boltann aðeins með sér og kláraði síðan með vinstri fæti í nærhornið. Afar vel gert og Liverpool komið í góða stöðu.

Með stoðsendingunni er Salah kominn með samtals 50 mörk og stoðsendingar í öllum keppnum á tímabilinu. Ótrúlegur árangur í aðeins 38 leikjum.

Staðan í hálfleik var 2-0 og eftir tæplega stundarfjórðung í síðari hálfleik virtist sem Curtis Jones væri að skora þriðja markið eftir að Liverpool hafði splundrað vörn City. Szoboszlai var hins vegar hárfínt rangstæður í aðdragandanum og VAR dæmdi markið réttilega af.

City virtist aðeins vera að sækja í sig veðrið þegar leið á síðari hálfleikinn en gekk eftir sem áður mjög illa að skapa sér alvöru færi. Pep Guardiola gerði þrjár breytingar þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en þær höfðu lítið að segja. Liverpool tók enga sénsa og voru ef eitthvað var nær því að bæta við þriðja markinu en City að minnka muninn.

Síðustu mínúturnar fjöruðu hægt og rólega út og leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu vel þegar Anthony Taylor flautaði til leiksloka. Lokatölur 2-0 og forystan á toppnum nú orðin ellefu stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira