Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég reyni að vakna tvisvar í viku extra snemma til að mæta í ræktina milli sex og sjö og hina dagana þá vakna ég um sjöleytið.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Á ræktardögum læðist ég út hálfsofandi í bílinn til að vekja ekki fjölskylduna. Þar sem eiginmaðurinn minn er svefnstyggur, vakna ég við titring í apple-úrinu mínu og læðist svo af stað í hljóðlátum rafmagnsbílnum til að leyfa fjölskyldunni að sofa lengur.
Á öðrum dögum vakna ég og 16 ára dóttir mín rétt fyrir klukkan sjö og gerum okkur tilbúnar, sem tekur alveg dágóðan tíma ef þú spyrð karlmennina í fjölskyldunni. Við drífum okkur af stað extra snemma til að ná á undan umferðinni niður í bæ, þar sem hún er í menntaskóla í miðbænum og skrifstofan mín í Katrínartúni.
Upphaflega hélt ég að þetta væri frábær tími til að njóta gæðatíma með dóttur minni og ræða um lífið og tilveruna, en hún leggur meiri áherslu á að safna svefni á leiðinni - aðeins skellur fyrir móðurina. Þar sem ég veit hins vegar hversu mikilvægur svefninn er, sætti ég mig þessu og hef í staðinn fínan tíma til að íhuga og skipuleggja daginn í huganum.“
Ef þú værir rokkari eða fræg poppstjarna, hver værir þú þá?
Frá unga aldri hafði móðir mín áhyggjur af því hversu fölsk ég væri þegar ég stóð inni í stofu með heyrnartólin á mér að syngja upphátt.
Hún hafði það miklar áhyggjur að hún fékk ráð hjá vinkonu sinni, sem var kórstjórinn í skólanum, hvernig hún gæti stutt við bakið á mér.
Ég hef því sætt mig við að mínir hæfileikar endurspeglast í öðru.
En ef ég mætti velja þá er ekki hægt að velja aðra en Beyoncé – ekki bara vegna þess að mér finnst hún frábær söngkona, heldur líka hvernig hún hefur þróast á skipulagðan hátt og náð aðdáendum sínum með sér.
Ég dáist að því hvernig hún endurskilgreinir sig með hverri plötu, tileinkar sér nýja strauma og byggir sinn feril með öryggi og metnaði. Hún leggur augljóslega mikla vinnu í það þessar breytingar og er óhrædd við að stíga inn á nýjar brautir samanber nýjustu kántrístefnuna sem hún er að taka með Cowboy Carter.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég tók nýlega við nýju starfi og vinn með frábæru teymi hjá Nox, bæði í Reykjavík og Bandaríkjunum, að undirbúningi þriggja ára vaxtastefnu fyrirtækisins.
Ég reyni einnig að setja mér það markmið að læra meira um svefn á hverjum degi og kynna mér þær rannsóknir sem lausnir okkar byggja á.
Að auki heldur ný stefna bandaríska forsetans um tolla okkur á tánum, þar sem við erum að meta áhrifin á reksturinn.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég elska tékklista og finn alltaf leiðir til að búa þá til; í Google Sheets, Excel, Asana, tölvupóstum, Messenger, stílabókum eða jafnvel á miða á ísskápinn heima. Það er fátt eins gefandi og að strika af verkefni og sjá áþreifanlegan árangur.
Fjölskyldan mín myndi líklega segja að ég taki tékklistagerðina aðeins of langt. Nema yngsti fjölskyldumeðlimurinn, sem er sjö ára og býr glaður til lista yfir allt skemmtilegt sem hann vill gera um helgar.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að vera komin í rúmið milli klukkan tíu og ellefu enda góður svefn mikilvægur.
Það besta sem ég geri fyrir svefninn er að fara í göngutúr með góðri vinkonu eða eiginmanninum til að hreinsa hugann eftir daginn. Til að fá aukaorku þarf göngutúrinn að vera með fram sjávarsíðunni, helst þar sem ég sé til fjalla.
Ég er alin upp á Húsavík, og fátt er betra en að anda að sér sjávarloftinu við Skjálfandaflóa, fylgjast með bátunum í höfninni og horfa til Kinnarfjalla.“