BBC greinir frá því að konan, sem heitir Julia Wandel en hefur einnig gengið undir nafninu Wandelt, hafi verið handtekin á flugvellinum í Bristol síðastliðinn miðvikudag.
Hún er eins og áður segir grunuð um umsáturseinelti, sem á að hafa valdið fjölskyldu McCann mikilli vanlíðan og skelfingu.
Nú er hún í gæsluvarðhaldi, en fyrirhugað er að hún muni koma fyrir dóm í byrjun aprílmánaðar og muni gefa upp afstöðu til sakarefnisins, sem er sagt fjórþætt.
Á meðal þess sem Wandel er gefið að sök er að hafa í tvígang farið að heimili McCann-fjölskyldunnar í Leicestershire, annars vegar 2. maí og hins vegar 7. desember síðastliðinn. Þá hafi hún sent skilaboð á foreldra Madeleine, Kate og Gerry McCann, á samfélagsmiðlinum WhatsApp, og sent skilaboð á systkini stúlkunnar á Instagram.
Kona um sextugt var jafnframt handtekin, en mun hafa verið látin laus.
Mál Madeleine McCann er eitt þekktasta mannhvarfsmál sögunnar. Hún var einungis þriggja ára gömul þegar hún hvarf, en málið er enn óleyst. Hún sást síðast á orlofsheimili fjölskyldunnar í Praia da Luz í Portúgal, þann 3. maí 2007.
Árið 2023 vakti Wandel, sem er 23 ára gömul, athygli á samfélagsmiðlum, og svo í fjölmiðlum, þegar hún greindi frá því að hún teldi sig vera McCann. DNA-rannsókn leiddi þó í ljós að svo var ekki.
Fyrir réttrúmu ári baðst Wandel síðan afsökunar á því að hafa haldið því fram opinberlega að hún væri McCann.
„Ég ætlaði mér aldrei að særa neinn, þar á meðal McCann-fjölskylduna,“ sagði hún í viðtali við BBC í fyrra. „Ég vildi virkilega átta mig á því hver ég væri í raun og veru.“