Lífið

VÆB keppa fyrir hönd Ís­lands í Euro­vision

Magnús Jochum Pálsson skrifar
VÆB-bræður, Matthías Davíð Matthíasson og Hálfdán Helgi Matthíasson, ásamt textahöfundinum Inga Þór Garðarssyni.
VÆB-bræður, Matthías Davíð Matthíasson og Hálfdán Helgi Matthíasson, ásamt textahöfundinum Inga Þór Garðarssyni. Vísir/Hulda Margrét

VÆB eru sigurvegarar Söngvakeppninnar og munu flytja lagið „Róa“ sem framlag Íslands í Eurovision árið 2025. Þeir hlutu flest atkvæði hjá bæði íslensku þjóðinni og alþjóðlegri dómnefnd.

Í kvöld réðist hvert framlag Íslands yrði í Eurovision sem fer fram í Basel í Sviss í maí. Sex lög komust áfram úr undanúrslitum síðustu tvö laugardagskvöld og kepptu til úrslita:

  1. „Like You“ – Ágúst
  2. „Aðeins lengur“ – Bjarni Arason
  3. „Fire“ – Júlí og Dísa
  4. „RÓA“ – VÆB
  5. „Words“ – Tinna
  6. „Set Me Free“ – Stebbi Jak

Í ár var sænska leiðin tekin upp þar sem símakosning vóg helming á móti atkvæðum alþjóðlegrar dómnefndar.

Alþjóðlega dómnefndin var skipuð átta dómurum frá jafnmörgum löndum, Hollandi, Danmörku, Tyrklandi, Úkraínu, Englandi, Írlandi og Króatíu, sem gáfu hver átta, tíu og tólf stig. 

VÆB hlaut flest stig, 74, en þar á eftir komu Júlí og Dísa með 63 stig og Stebbi Jak með 57 stig. 

Stigataflan raðaðist upp svona:

  • „RÓA“ – VÆB: 74 stig
  • „Fire“ – Júlí og Dísa: 63 stig

  • „Set Me Free“ – Stebbi Jak: 57 stig

  • „Words“ – Tinna: 53 stig

  • „Like You“ – Ágúst: 45 stig
  • „Aðeins lengur“ – Bjarni Arason: 44 stig

Íslenska þjóðin kaus síðan sinn fulltrúa og var nokkuð í takt við dómnefndina. Stigin röðuðust svo:

  • „RÓA“ – VÆB: 93 stig
  • „Set Me Free“ – Stebbi Jak: 85 stig
  • „Fire“ – Júlí og Dísa: 74 stig
  • „Aðeins lengur“ – Bjarni Arason: 39 stig
  • „Like You“ – Ágúst: 23 stig
  • „Words“ – Tinna: 22 stig

Stig almennings voru svo lögð saman við stig dómnefndar og stóðu VÆB þar uppi sem sigurvegarar með 167 stig, Stebbi Jak var í öðru með 142 stig og Júí og Dísa með 137 stig.

VÆB-sveitin trylltist auðvitað af gleði þegar fréttirnar bárust.Vísir/Hulda Margrét
Gleði gleði gleði.Vísir/Hulda Margrét
Hera Björk veitti drengjunum í VÆB verðlaun fyrir sigur í Söngvakeppninni árið 2025.Vísir/Hulda Margrét

Úrvalslið tónlistarfólks

Herra Hnetusmjör opnaði kvöldið með vinsælasta laginu á Íslandi í dag og Hera Björk, sigurvegari Söngvakeppninnar 2024, söng á sviðinu áður en hún afhenti verðlaunagripinn til sigurvegara kvöldsins.

Finnski Eurovision söngvarinn, Käärijä, sem lenti í öðru sæti í Eurovision 2023 með laginu „Cha Cha Cha“ kom fram ásamt sænsku sveitinni Hooja.

Kynnar kvöldsins, Guðrún Dís Emilsdóttir, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson, brugðu á leik og buðu áhorfendum upp á hinar ýmsu óvæntu uppákomur.

Gunna Dís og Hraðfréttabræður voru kynnar kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Þeir sem vilja rifja upp atriðin sex sem börðust um farseðilinn í Eurovision í Basel í maí geta séð þau hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.