Gunnar stígur aftur inn í bardagabúrið á vegum UFC sambandsins eftir innan við mánuð þar sem að hann mætir villta Bandaríkjamanninum Kevin Holland.
Í horni Gunnars, líkt og ávallt í gegnum hans feril, verður faðir hans og umboðsmaður Haraldur Dean Nelson sem hefur fylgt syni sínum í gegnum atvinnumannaferilinn sem enn sér ekki fyrir endann á og vill hinn 36 ára gamli Gunnar ekki titla komandi bardaga sinn sem kveðjubardaga.
Á sama tíma hefur Haraldur látið sig ýmsa hluti varða bæði innan UFC sem og varðandi lögleiðingu MMA hér á landi.
Ykkar samband í gegnum þetta. Þetta hefur verið langt, þið hafið upplifað sæta sigra saman en einnig súr töp. Það hlýtur að vera dýrmætt, eitthvað sem verður dýrmætari þegar að ferlinum lýkur, að hafa átt þessi ár með föður þínum í þessu?
„Já ekki spurning,“ svarar Gunnar. „Hann hefur verið með mér frá því í byrjun, verið minn umboðsmaður og hefur séð um eitt og annað. Alltaf komið með mér í búrið. Þetta verða minningar sem að skila sér einhvern veginn inn í framhaldið. Það er svo margt sem að við rifjum reglulega upp. Þetta er einhvern veginn ómetanlegt.“
Og þessi vegferð ykkar kjarnast svo einhvern veginn í starfinu sem er unnið hjá Mjölni.
„Já. Við stofnum Mjölni og hann er búinn að vera með okkur í því sem framkvæmdarstjóri til lengri tíma. Það er ekki bara ferillinn minn, heldur svolítið MMA á Íslandi sem við höfum verið að stíga saman og vinna að.“
Gunnar Nelson mætir Kevin Holland á bardagakvöldi UFC í London þann 22.mars næstkomandi.