Innlent

Tvö ung börn í bíl ölvaðs öku­manns

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þrír voru vistaðir í fangaklefa á tímabilinu frá klukkan fimm í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bókaði 102 mál á tímabilinu. 
Þrír voru vistaðir í fangaklefa á tímabilinu frá klukkan fimm í gærkvöldi til klukkan fimm í morgun. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bókaði 102 mál á tímabilinu.  Vísir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af ölvuðum ökumanni sem reyndist án ökuréttinda í Reykjavík í nótt. Í bílnum voru tvö ung börn. 

Þetta kemur fram í fréttaskeyti lögreglunnar, en þar segir að málið hafi verið afgreitt með aðkomu barnaverndar. Lögregla stöðvaði einnig tvo ökumenn sem reyndust undir áhrifum fíkniefna í hverfum 104 og 105 í nótt. 

Lögreglan stöðvaði einnig unglingapartý í Kópavogi í nótt, en í skeytinu segir að málið hafi verið afgreitt með aðkomu foreldra og barnavernd. 

Í Efra-Breiðholti var einstaklingur handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar. Úr sama hverfi barst lögreglu tilkynning um mann sem var til vandræða í fjölbýlishúsi. Maðurinn var fjarlægður svo svefnfriður yrði í húsinu. 

Ölvuðum einstaklingi var einnig vísað út af hóteli í miðbæ Reykjavíkur, þar sem hann var ekki með herbergi á hótelinu en var engu að síður búinn að okma sér fyrir í setustofu hótelsins. Úr miðbænum barst lögreglu að auki tilkynning um eld í íbúð. Enginn slasaðist en íbúðin er sögð mikið skemmd. 

Þá var einstaklingur handtekinn og vistaður í fangaklefa í miðbæ Reykjavíkur eftir slagsmál. Sá var einnig kærður fyrir vopnalagabrot. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×