Fótbolti

Íranir ætluðu ekki að húð­strýkja Ronaldo

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Cristiano Ronaldo þarf ekki að óttast að fara til Íran.
Cristiano Ronaldo þarf ekki að óttast að fara til Íran. vísir/getty

Íranska sendiráðið í Bretlandi segir það ekki vera rétt að til hafi staðið að veita Cristiano Ronaldo svipuhögg líkt og haldið var fram í fjölda fjölmiðla í gær.

Ronaldo var hvergi sjáanlegur í leik síns liðs, Al-Nassr, er það spilaði við íranska félagið Esteghlal í Meistaradeild Asíu. Hann var sagður vera meiddur en fjölmiðlar héldu því fram að hann hefði ekki þorað til Íran af ótta við verða húðstrýktur.

Árið 2023 faðmaði og kyssti Ronaldo unga fatlaða konu í Íran. Hann gerði það til að þakka henni fyrir mynd sem hún málaði af honum með því að nota aðeins fæturna. Þessi vinsemd og góðsemi Ronaldo kom honum aftur á móti í mikil vandræði í Íran.

Íranir líta á slíkt sem framhjáhald. Það er þegar þú sýnir kvenmanni, sem er ekki eiginkona þín, slíka ástúð og kærleiksþel, þá er eins og þú sért að halda framhjá konu þinni. Refsing fyrir slíkt gæti verið fangelsisvist og 99 svipuhögg. 

„Við mótmælum harkalega þeim fréttaflutningi að til hafi staðið að refsa alþjóðlegum íþróttamanni í Íran,“ sagði meðal annars í tilkynningu sendiráðsins.

„Þvert á móti var fundi hans við Fatemeh Hamami hrósað af yfirvöldum og fólkinu í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×