Viðskipti innlent

Tuttugu þúsund færri far­þegar á milli ára

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sætanýting flugfélagsins Play var sex prósentum minni í febrúar 2025 samanborið við árið áður.
Sætanýting flugfélagsins Play var sex prósentum minni í febrúar 2025 samanborið við árið áður. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play flutti um tuttugu þúsund færri farþega í febrúar 2025 heldur en í febrúar árið 2024. Ástæðan sé munur á framboði milli ára ásamt ákvörðun félagsins að leigja út farþegaþotu sína.

Play flutti 86.893 farþega núna í febrúar en 106.042 farþegar ferðuðust með flugfélaginu í febrúar árið áður sem er 13,8 prósenta munur.

„Sem er bein afleiðing af ákvörðun Play að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðabundnum sveiflum,“ stendur í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Sætanýting í mánuðinum var 75,8 prósent samanborið við 81 prósent árið áður. Þá fór stundvísi úr 90,1 prósenti í 81 prósent milli ára.

„Play hefur lagt aukna áherslu á aukið framboðið til sólarlandaáfangstaða í Suður-Evrópu, sem endurspeglast í sætanýtingu í febrúar. Sólarlandaáfangastaðir gefa sér betri afkomu en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu,“ stendur í tilkynningunni.

Áhersla á flug til sólarlanda hafi jákvæði áhrif á einingartekjur flugfélagsins en tekjurnar hafi aukist í sjö mánuði samfellt. 

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir í tilkynningunni að einingatekjur þróist áfram í jákvæða átt. 

„Þetta er staðfesting á því að ákvörðun okkar um að breyta viðskiptalíkani félagsins hefur gefið góða raun og við erum viss um að þessi jákvæði viðsnúningur sem fylgir breytingunum haldi áfram,“ segir Einar Örn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×