Handbolti

Gauti bjargaði stigi en ÍR færist fjær botninum

Sindri Sverrisson skrifar
Gauti Gunnarsson skoraði sjö mörk í dag og þar á meðal tvö á lokamínútunni.
Gauti Gunnarsson skoraði sjö mörk í dag og þar á meðal tvö á lokamínútunni. VÍSIR/VILHELM

ÍR missti sigurinn úr höndunum á lokamínútu leiksins við ÍBV í Eyjum í dag, í Olís-deild karla í handbolta, er liðin gerðu 33-33 jafntefli. Haukar unnu risasigur gegn botnliði Fjölnis, 37-18, í Grafarvogi.

Það var Gauti Gunnarsson sem sá til þess að ÍR-ingar færu ekki með bæði stigin heim frá Eyjum í dag, með því að skora tvö af sjö mörkum sínum á lokamínútunni.

Samkvæmt HB Statz skoraði Gauti jöfnunarmarkið úr hægra horninu þegar örfáar sekúndur lifðu leiks. Eyjamenn höfðu þó verið 30-28 yfir þegar átta mínútur voru eftir en ÍR-ingar þá skorað fjögur mörk í röð og verið nær sigrinum. ÍBV var 17-16 yfir í hálfleik.

ÍR er núna með 11 stig eftir 20 leiki af 22, í 10. sæti deildarinnar. Liðið er stigi fyrir ofan Gróttu sem á leik til góða en Fjölnir er neðst með átta stig.

Neðsta liðið fellur beint niður um deild en liðið í næstneðsta sæti fer í umspil við lið úr næstefstu deild, samkvæmt nýjum reglum sem samþykktar voru á síðasta ári. ÍR-ingar eru því langt komnir með að forðast botnsætið en eiga enn á hættu að lenda í fallumspilinu.

ÍBV er hins vegar með 21 stig í 6. sæti deildarinnar. Haukar eru sæti ofar með 24 stig eftir sigurinn örugga í Grafarvogi.

Sveinn José Rivera var markahæstur hjá ÍBV í dag með níu mörk en Gauti kom næstur með sjö. Hjá ÍR voru Baldur Fritz Bjarnason og Bernard Kristján Owusu Darkoh markaæhstir með tíu mörk hvor.

Í Grafarvoginum var Sigurður Snær Sigurjónsson markahæstur Hauka með átta mörk en Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði sjö og Össur Haraldsson sex. Hjá heimamönnum var þjálfarinn Gunnar Steinn Jónsson markahæstur með fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×