Í endurskoðuðum ráðleggingum um mataræði er lögð áhersla á mataræðið í heild sinni. Aukin áhersla er lögð á afurðir úr jurtaríkinu eins og grænmeti, ávexti og ber, baunir, linsur, hnetur, fræ og heilkornavörur.
Einnig er áhersla á fisk og hóflega neyslu á mjólkurvörum. Mælt er með lítilli neyslu á rauðu kjöti, sérstaklega unnum kjötvörum og unnum vörum sem innihalda mikinn viðbættan sykur, mettaða fitu og salt.
„Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan,“ segir í tilkynningu frá embættinu.
Ráðleggingarnar byggja á Norrænum næringarráðleggingum frá árinu 2023 ásamt öðrum rannsóknum á sambandi næringar og heilsu og niðurstöðum kannana á mataræði Íslendinga, bæði barna og fullorðinna.