Erlent

Vörpuðu sprengju á heimili leið­toga Íslamsks jíhad

Samúel Karl Ólason skrifar
Að minnsta kosti þrír eru sagðir hafa særst í árásinni.
Að minnsta kosti þrír eru sagðir hafa særst í árásinni. AP/Omar Sanadiki

Ísraelskir flugmenn vörpuðu í dag sprengjum á fjölbýlishús í úthverfi Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Talsmenn ísraelska hersins segja bygginguna hafa verið notaða sem stjórnstöð hryðjuverkasamtakanna Íslamskt jíhad.

Ziad al-Nakhale, leiðtogi PIJ, er sagður hafa átt húsið en meðlimur samtakanna sagði blaðamanni AP fréttaveitunnar að al-Nakhale hefði ekki búið í húsinu um árabil. Hann sagði húsið hafa verið tómt

Viðbragðsaðilar segja þrjá hafa særst í árásinni.

Herinn birti myndband af árásinni í dag og því fylgja skilaboð um að ísraelski herinn muni ekki leyfa hryðjuverkasamtökum að festa rætur í Sýrlandi en Ísraelar hafa gert fjölmargar loftárásir í Sýrlandi í gegnum árin.

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, staðfesti árásina í dag og sagði hann að markmiðið væri að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir í Ísrael.

Samkvæmt Times of Israel beindi Katz einnig orðum sínum til Ahmed al-Sharaa, forseta Sýrlands, og sagði að hann gæti búist við ísraelskum flugvélum yfir Sýrlandi, alls staðar þar sem hryðjuverkastarfsemi væri að finna.

„Íslömsk hryðjuverkastarfsemi mun ekki vera ónæm í Damaskus, né nokkursstaðar annars staðar,“ sagði Katz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×