Handbolti

Að­eins einu sinni komist fyrr inn á EM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér sætinu á EM eftir sannfærandi sigur í Laugardalshöllinni í gær.
Íslensku strákarnir fagna hér sætinu á EM eftir sannfærandi sigur í Laugardalshöllinni í gær. Vísir/Anton Brink

Íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér í gær sæti á Evrópumótinu í byrjun næsta árs og varð um leið aðeins fimmta þjóðin sem gulltryggir farseðil sinn á EM 2026.

Danir, Norðmenn og Svíar halda mótið og komust því þangað um leið og þeir voru útnefndir gestgjafar 20. nóvember 2021 og Frakkar tryggðu sér sætið þegar þeir urðu Evrópumeistarar 26. janúar 2024.

Ísland er aftur á móti fyrsta þjóðin sem kemst á mótið í gegnum undankeppnina enda eru nóg af leikjum eftir þar.

Íslenska liðið er með fullt hús eftir fjóra leiki og sex stiga forskot á næsta lið í riðlinum.

Íslenska liðið er komið alla leið á mótið þrátt fyrir að það séu enn 306 dagar í mótið og tveir leikir eftir í undankeppninni. Liðið kláraði dæmið 15. mars 2025 en fyrsti leikur Evrópumótsins fer fram 15. janúar 2026.

Íslenska liðið verður því með á fjórtánda Evrópumótinu í röð en strákarnir okkar hafa bara einu sinni áður tryggt sér farseðilinn fyrr.

Það kom af góðu og vegna frábærs árangurs liðsins á EM í Svíþjóð 2002. Með því að komast í undanúrslit á Evrópumótinu fyrir rúmum 23 árum þá var farseðillinn tryggður á mótið tveimur árum seinna.

Ísland komst því á EM 2004 721 degi fyrir fyrsta leik mótsins eða 31. janúar 2022 en EM í Slóveníu hófst síðan 22. janúar 2004.

Gamla metið í undankeppninni var fyrir EM 2014 þegar íslenska liðið tryggði sig inn 7. apríl 2013 eða 280 dögum fyrir fyrsta leik. Þá unnu íslensku strákarnir Slóvena í annað skiptið á fjórum dögum og voru þá komnir á EM.

  • Ísland snemma inn á Evrópumótið:
  • 31. janúar 2002 (EM 2004) - 721 dagur
  • 15. mars 2025 (EM 2026) - 306 dagar
  • 7. apríl 2013 (EM 2014) - 280 dagar
  • 29. apríl 2021 (EM 2022) - 260 dagar
  • 27. apríl 2023 (EM 2024) - 259 dagar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×