Innlent

Heiða Björg hættir sem for­maður SÍS

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri.
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri. Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ætlar að hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Laun hennar vöktu mikil viðbörgð ásamt ákvörðun hennar í kjaradeilu kennara.

Þetta tilkynnti hún á landsfundi SÍS á fimmtudag samkvæmt fréttastofu RÚV. Nýr fulltrúi verður kosinn í hennar stað. Hún var lengi að íhuga hvort hún myndi halda áfram starfi sínu sem formaður SÍS en hún tók við starfi sem borgarstjóri 21. febrúar.

Í nýliðnum kjaradeilum kennara klauf Heiða Björg sig frá stjórn SÍS þegar hún sagðist hafa stutt tillögu ríkissáttasemjara sem kennarar samþykktu, en stjórn SÍS hafnaði þeirri tillögu. Hún sagði það hafa komið sér á óvart að tillagan hafi ekki verið samþykkt. Það olli óánægju meðal meðlima Sambandsins.

Þá vöktu laun Heiðu einnig mikla athygli en hún er með um 3,8 milljónir í mánaðarlaun. Þar af eru 854.470 krónur fyrir formennsku sína í SÍS. Þar á meðal setti Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, út á laun hennar sem hafa hátt í þrefaldast frá árinu 2023.

Sjá einnig: Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn ákváðu formannslaun Heiðu Bjargar

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×