Fótbolti

Ian Wright: „Vellirnir sem þessar stelpur þurfa að spila á eru til skammar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má voru vallaraðstæður á Estadio Alfredo di Stefano ekki ákjósanlegar.
Eins og sjá má voru vallaraðstæður á Estadio Alfredo di Stefano ekki ákjósanlegar. afp/JAVIER SORIANO

Erfiðar vallaraðstæður settu mark sitt á fyrri leik Real Madrid og Arsenal í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ein helsta hetja í sögu Arsenal gagnrýndi völlinn sem leikurinn fór fram á.

Real Madrid vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu og er því í góðri stöðu í einvíginu. Linda Caicedo og Athenea del Castillo skoruðu mörk Madrídarliðsins.

Leikurinn í gær fór fram á Estadio Alfredo di Stefano í Madríd sem varalið karlaliðs Real Madrid spilar jafnan á. Aðstæður voru erfiðar, það rigndi mikið og völlurinn var laus í sér.

Ian Wright, sem skoraði 185 mörk fyrir Arsenal á sínum tíma, birti myndband af vellinum á samfélagsmiðlum á meðan leiknum stóð og gagnrýndi að leikmönnum liðanna væri boðið upp á þessar aðstæður.

„Er að horfa á leikinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Völlurinn hjá Real Madrid er verri en völlurinn hjá Derby í úrslitaleik deildabikarsins um daginn. Vellirnir sem þessar stelpur þurfa að spila á eru til skammar,“ skrifaði Wright.

Talsverð umræða skapaðist um bágborið ástand Pride Park, heimavallar Derby County, eftir að úrslitaleikur enska deildabikarsins fór þar fram á laugardaginn. Erin Cuthbert, leikmaður Chelsea sem vann Manchester City, 2-1, sagði að völlurinn væri ekki sæmandi fyrir úrslitaleik.

Seinni leikur Arsenal og Real Madrid fer fram á Emirates, heimavelli karlaliðs Arsenal, 26. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×