Woods er 23 ára gömul og hefur verið iðin við markaskorun með Kentucky-háskóla vestanhafs. Hún var markahæst háskólaliðsins með ellefu mörk á liðnu tímabili.
Woods kemur til með að fylla skarð Jordyn Rhodes sem var markahæst Tindastólsliðsins á síðustu leiktíð með tólf mörk í 21 leik. Tindastóll hafnaði í 8. sæti Bestu deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið. Keflavík og Fylkir féllu niður í næst efstu deild.
Woods er þriðji leikmaðurinn sem kemur frá Bandaríkjunum til Tindastóls í vetur. Áður samdi liðið við þýska miðjumanninn Nicolu Hauk, sem kom frá Nebraska-háskóla, og varnarmanninn Katherine Grace Pettet sem kom frá Pittsburgh.
Sama húsnæði, sama starfsemi
Woods kemur sömu leið og Rhodes en sú síðarnefnda kom einnig til Tindastóls úr Kentucky-háskólanum fyrir ári síðan.
Það er því sama uppskrift hjá Stólunum sem treysta á samskonar framlag frá öðrum nema Kentucky-háskólans.
Rhodes heillaði mjög síðasta sumar og fékk í gegn skipti til bikarmeistara Vals, en tilkynnt var um skipti hennar á Hlíðarenda í vikunni.
Keppni í Bestu deild kvenna hefst 15. apríl næst komandi. Tindastóll mætir nýliðum FHL í fyrsta leik á Króknum degi síðar, 16. apríl.