Eftir mikla eyðimerkurgöngu með United náði Höjlund loks að skora í síðasta leik liðsins og hann endurtók leikinn á Parken í gærkvöld, eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Í þetta sinn tók hann „siiiiiu“-fagnið sem flestir þekkja, úr smiðju Ronaldo, á meðan portúgalska goðið stóð með hendur á mjöðm og horfði á.
„Mig hefur alltaf dreymt um að taka Ronaldo-fagnið, sérstaklega í leik á móti honum. Ekki til að nudda honum upp úr því eða eitthvað slíkt. Þvert á móti til að sýna virðingu. Ég er jú mikill aðdáandi,“ sagði Höjlund eftir leik í gær, samkvæmt Ekstra Bladet.
RASMUS HOJLUND COMES OFF THE BENCH TO GIVE DENMARK THE LEAD VS. PORTUGAL 🔥
— ESPN FC (@ESPNFC) March 20, 2025
HE HIT THE "SIUUU" IN FRONT OF RONALDO 😳 pic.twitter.com/FvOoe0jwZ1
Sá mynd af Ronaldo í nærbuxum og vildi verða eins
„Ég varð United-aðdáandi út af honum og ég fór að fylgjast með Real Madrid og Juventus út af honum.
Ég man að ég sá mynd af honum þar sem hann lá í nærbuxum og ég hugsaði með mér að svona vildi ég líta út, svo ég fór að gera armbeygjur og magaæfingar á hverjum degi áður en ég fór að sofa. Hann hefur haft svo mikla þýðingu fyrir mig,“ sagði Höjlund og leyndi ekki aðdáun sinni á Ronaldo.
„Ég fór á leik árið 2009 þar sem hann skoraði úr aukaspyrnu og eftir það hef ég verið mikill aðdáandi. Besti vinur minn var líka á vellinum núna og við höfum alltaf haldið mikið upp á hann,“ sagði Höjlund ánægður.
Ballið er ekki búið því liðin mætast aftur í Lissabon á sunnudaginn. Sigurvegari einvígisins kemst í undanúrslit Þjóðadeildarinnar.