Fótbolti

Fékk gult spjald fyrir að gefa eigin­handará­ritanir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Wood fagnar fyrsta marki sínu gegn Fídjí.
Chris Wood fagnar fyrsta marki sínu gegn Fídjí. afp/Grant Down

Markahrókurinn Chris Wood fékk gult spjald fyrir nokkuð sérstakar sakir í leik Nýja-Sjálands og Fídjí í undankeppni HM 2026.

Wood hefur verið í miklum ham með Nottingham Forest í vetur og er í hópi markahæstu manna ensku úrvalsdeildarinnar.

Hann hélt uppteknum hætti þegar Nýja-Sjáland tók á móti Fídjí í dag. Ný-Sjálendingar unnu leikinn, 7-0, og skoraði Wood þrjú markanna, öll með skalla.

Eftir gott dagsverk var Wood tekinn af velli á 62. mínútu, skömmu eftir að hann skoraði sitt þriðja mark.

Framherjinn stóri og stæðilegi brá sér þá upp í stúku og byrjaði að gefa eiginhandaráritanir. Dómari leiksins hafði engan húmor fyrir því og gaf Wood gula spjaldið.

Wood og félagar og í ný-sjálenska landsliðinu mæta Nýju-Kaledóníu á mánudaginn. Með sigri tryggir Nýja-Sjáland sér sæti á HM á næsta ári.

Wood er langmarkahæstur í sögu ný-sjálenska landsliðsins með 44 mörk í 81 leik. Hann hefur spilað með landsliðinu síðan 2009 og lék með því síðast þegar það komst á HM, í Suður-Afríku fyrir fimmtán árum.

Hinn 33 ára Wood hefur skorað átján mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Forest er í 3. sæti hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×