Flóahreppur átti húsið, sem er alltaf kallað “Gamla Þingborg”, en það hefur verið til sölu í nokkurn tíma. Húsið á að víkja fyrir nýjum tveir plús einn vegi. Í húsinu er Þingborgarhópurinn svonefndi, sem er hópur prjónakvenna meðal annars með verslun og miðstöð íslensku ullarinnar en hvað verður um þá starfsemi er óvíst.
Stofnaður hefur verið sérstakur hópur á Facebook með yfirskriftinni „Björgum gömlu Þingborg”.
Guðni Ágústsson, sem ólst upp í 16 systkinahópi á Brúnastöðum í Flóahreppi segist sjá eftir húsinu en afi Margrétar Hauksdóttur, sem er kona Guðna, Gísli á Stóru - Reykjum í sömu sveit var oddviti á byggingartíma hússins og aðalhvatamaður að byggingu þess en húsið er frá 1927 eða 98 ára gamalt.
„Þetta er eitt fyrsta fundar- og samkomuhús í Árnessýslu. Þarna var stofnað Mjólkurbúa Flóamanna, þarna voru haldnir hinir stóru baráttufundir í pólitík. Þetta var miðstöð samskipta hér eftir 1930 og fram yfir miðja öld,” segir Guðni.

Guðni segir húsið sögufrægt, enda hafi verið byggt við það og þar hafi verið barnaskóli til fjölda ára, sem hann og Margrét voru meðal annars í. Hann segir að það sé draugur í húsinu og biður menn að vara sig á honum.

En nú á að fara að rífa húsið, hvað finnst þér um það?
„Þetta er tilfinningamál. Ég má enga skoðun hafa sjálfum sér á því en auðvitað hefði það verið skemmtilegra ef það hefði fengið hlutverk húsið og geta staðið þarna til framtíðar,” segir Guðni og bætir við.
„Þarna fór ég fyrst á svið, var stórleikari á sviðinu í Þingborg á þorrablótum og í barnaskóla. Þannig að minningarnar eru náttúrulega kærar og við erum sjálfsagt þúsund börnin, sem fórum í gegnum þennan skóla, stórir hópar kynslóða."
