Fótbolti

Helgi Kolviðs aftur í þjálfun

Sindri Sverrisson skrifar
Helgi Kolviðsson var aðstoðarþjálfari Íslands á HM 2018 og tók svo við landsliði Liechtenstein.
Helgi Kolviðsson var aðstoðarþjálfari Íslands á HM 2018 og tók svo við landsliði Liechtenstein. Getty

Helgi Kolviðsson, fyrrverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, er óvænt byrjaður að þjálfa að nýju eftir að hafa starfað sem yfirmaður íþróttamála hjá þýska félaginu Pfullendorf undanfarin ár.

Óhætt er að segja að Helgi eigi sterkar taugar til Pfullendorf því þar hóf þessi 53 ára, fyrrverandi landsliðsmaður sinn atvinnumannsferil á tíunda áratug síðustu aldar.

Eftir að hafa spilað með öðrum liðum í Þýskalandi og Austurríki lauk Helgi svo ferli sínum sem leikmaður hjá Pfuellendorf árið 2007, þegar liðið var í C-deild, og tók svo við þjálfun þess, líkt og hann gerir aftur núna.

Helgi þjálfaði þrjú lið í Austurríki áður en hann gerðist aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands á árunum 2016-18, þegar Ísland komst á HM í fyrsta og eina sinn, en hann aðstoðaði þá Heimi Hallgrímsson. Helgi tók í kjölfarið við landsliði Liechtenstein en hætti með það árið 2020.

Hann var svo ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Pfullendorf árið 2022 og hefur gegnt því starfi en ákvað nú að hlaupa undir bagga og þjálfa einnig liðið til loka þessarar leiktíðar, eftir að Andreas Keller var rekinn.

Lið Pfullendorf má muna fífil sinn fegurri og er aðeins í sjöttu efstu deild. Þar að auki er liðið í fallsæti og er Helga ætlað að forða liðinu frá falli á lokakafla leiktíðarinnar. Pfullendorf er með 18 stig eftir 21 leiki, fjórum stigum frá næsta örugga sæti og með leik til góða á liðið sem situr þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×