Öryggis- og varnarmál voru til umræðu á ráðstefnu sem blásið var til af embætti ríkislögreglustjóra og fór fram í morgun. Ýmislegt kom fram á ráðstefnunni, til að mynda að erlend ríki hafi stundað njósnir hér á landi í mun meira mæli en flestir telja.
„Það er að okkar mati njósnastarfsemi hér eins og á öllum vesturlöndum. Hún er að hluta til kannski meira núna einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem er í Evrópu,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn og yfirmaður öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra.
„Það væri bara einfeldni af okkur að halda að þetta sé ekki gert hér.“
Vinni að því að veikja lýðræðið
Vitað er að Kínverjar hafi stundað njósnir hérlendis og áhyggjur eru uppi af ógn frá Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu. Ríkislögreglustjóri segir að huga þurfi vel að þessu málum nú vegna ástandsins í heimsmálum.
„Við erum ekki á friðartímum, við erum heldur ekki á stríðstímum, við erum á gráa svæðinu þar á milli,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Hún segir erlend ríki hafa nýtt skipulagða glæpahópa til að ganga erinda sinna.
„Í að veikja lýðræðið, til dæmis með netárásum,“ segir Sigríður.
Undir sífelldum árásum
Hafa verið dæmi um það hér á landi?
„Já, það hafa verið dæmi um það hér á landi. Það sem ég man helst eftir var þegar rússneskur hakkarahópur fór inn og yfirtók gögn hjá Árvakri, það var síðasta sumar ef ég man rétt. Við erum sífellt undir árásum.“
Fjölmargir skipulagðir glæpahópar starfi hér á landi, til dæmis hópar frá Albaníu og Venesúela.
„Við skulum ekki halda að Íslendingar komi ekki nálægt þessu, þeir eru bæði virkir hér og þeir eru líka virkir í glæpastarfsemi erlendis og eru að flytja inn efni til Íslands. Það sem er kannski alvarlegast í því er mansalið og við þurfum sannarlega að gera betur í því.“