Upp­gjörið: Aftur­elding - ÍBV 32-30 | Mos­fellingar unnu fyrsta slaginn

Hinrik Wöhler skrifar
Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik fyrir Aftureldingu í dag.
Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik fyrir Aftureldingu í dag. Vísir/Jón Gautur

Afturelding lagði ÍBV í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta, en leikurinn fór fram í Mosfellsbæ í dag. Viðureignin var í járnum frá fyrstu mínútu, en að lokum höfðu heimamenn betur, 32-30.

Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti með Dag Arnarsson í fararbroddi. Hann skoraði að vild og var kominn með fjögur mörk eftir tæplega tíu mínútur.

Ísak Rafnsson tekur harkalega á móti Blæ Hinrikssyni.Vísir/Jón Gautur

Mosfellingar náðu að snúa leiknum sér í vil og nýttu sóknir sínar vel þegar Eyjamenn voru einum færri, enda talsvert um tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik.

Markverðir liðanna, Einar Baldvin Baldvinsson og Petar Jokanovic, voru í miklum ham í fyrri hálfleik og var lítið skorað um miðbik hans. Staðan var 8-8 eftir tæplega tuttugu mínútur.

Leikurinn var í járnum og liðin skiptust á að hafa eins marks forystu.

Einar Baldvin Baldvinsson reyndist Eyjamönnum erfiður viðureignar.Vísir/Jón Gautur

Dagur Arnarsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks úr vítakasti og leiddu Eyjamenn með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja, 14-13.

Leikurinn var hraðari í seinni hálfleik og líkt og þeim fyrri skiptust liðin á að skora.

Spennustigið jókst þegar leið á leikinn og þegar um það bil tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fór sóknarleikur Eyjamanna að hiksta á meðan sókn Mosfellinga gekk smurt.

Munurinn var þó aldrei mikill, aðeins eitt til tvö mörk, Mosfellingum í vil. Blær Hinriksson kom Mosfellingum í þriggja marka forystu, 29-26, þegar fimm mínútur voru eftir og ljóst að gestirnir þyrftu að bregðast skjótt við.

Birgir Steinn Jónsson var fremstur meðal jafningja í dag og skoraði sjö mörk.Vísir/Jón Gautur

Eyjamenn náðu að minnka muninn í tvö mörk og léku maður á mann í vörninni til að freista þess að jafna. Nær komust þeir þó ekki og lauk leiknum 32-30 í spennandi viðureign í Mosfellbæ.

Afturelding leiðir nú einvígið, en sigra þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit úrslitakeppninnar. Næsti leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á þriðjudag.

Atvik leiksins

Leikurinn gat dottið báðum megin og var gríðarlega jafn frá fyrstu mínútu. Mosfellingar náðu loks að sigla sigrinum heim með vítakasti þegar fimm mínútur voru eftir.

Eyjumaðurinn Dagur Arnarsson í hlýjum faðmi Ihor Kopyshynskyi.Vísir/Jón Gautur

Birgir Steinn Jónsson gerði vel með gegnumbroti og fiskaði vítakast sem Blær Hinriksson skoraði síðan úr, stöngin inn.

Stjörnur og skúrkar

Lykilleikmenn Aftureldingar, Birgir Steinn Jónsson og Blær Hinriksson, stigu upp í leiknum í dag og voru frábærir í liði Aftureldingar. Þeir voru í fararbroddi í sóknarleik Mosfellinga og jafnframt léku óaðfinnanlega í vörninni framan af leik.

Nökkvi Snær Óðinsson skoraði eitt mark úr fjórum tilraunum.Vísir/Jón Gautur

Dagur Arnarsson leiddi sóknarleik Eyjamanna en markvörður Aftureldingar, Einar Baldvin Baldvinsson, reyndist leikmönnum ÍBV erfiður viðureignar. Eyjamenn fengu lítið úr hornunum og var nýtingin slæm, sér í lagi vinstra megin.

Dómarar

Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson héldu fínni línu gegnum allan leikinn. Það voru engin stór vafaatriði í leiknum í dag þrátt fyrir spennu og dramatík.

Svavar Ólafur Pétursson dæmdi leikinn í dag ásamt Sigurði Hirti.Vísir/Jón Gautur

Stemning og umgjörð

Það var öllu tjaldað til í Mosfellsbænum enda stór dagur fyrir stuðningsmenn og félagið. Stuðningsmenn heimamanna tóku daginn snemma í vallarhúsinu og eftir leik héldu þeir síðan í rútu á Kópavogsvöll þar sem knattspyrnulið félagsins tekur á móti Breiðablik í opnunarleik Bestu-deildar karla.

Stuðningsmenn Aftureldingar gátu fagnað í leikslok.Vísir/Jón Gautur

Hvíti Riddarinn, stuðningsmannsveit ÍBV, létu sig ekki vanta í stúkuna í dag og var mætingin hjá Eyjamönnum til fyrirmyndar í Íþróttamiðstöðinni að Varmá í dag og má búast við ekki síðri mætingu út í Eyjum á þriðjudag.

Viðtöl

Magnús: „Alveg hundsvekktur að ná ekki í sigur“

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, fer yfir málin í leiknum í dag.Vísir/Jón Gautur

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, fór tómhentur úr Mosfellsbæ í dag, en Eyjamenn töpuðu fyrir Aftureldingu í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla.

„Við dettum niður varnarlega, missum dampinn þar og held að þetta liggi aðallega þar. Bæði lið eru að fá mikið af fínum færum og þá er þetta, þegar uppi er staðið, hvort liðið nær að verjast betur á stórum köflum,“ sagði þjálfarinn í leikslok.

Leikurinn var talsvert hraðari í seinni hálfleik, samanborið við þann fyrri, og gat sigurinn dottið báðum megin. Magnús hefði viljað taka meira úr þessum jafna leik.

„Frábær leikur að horfa á og þetta er tvö skemmtileg lið. Ég er alveg hundsvekktur að ná ekki í sigur hér í dag.“

Það mátti ekki miklu muna að Eyjamenn hefðu getað sigrað í dag en það var stuttur kafli í leiknum þar sem Mosfellingar náðu að skilja Eyjamenn eftir.

„Við hættum þarna á smá kafla að sækja í færin sem voru að gefa okkur mörk og á sama tíma dettum við aftur á hælana. Þetta er eitthvað móment sem ég þarf að skoða og við þjálfararnir þurfum að leggja yfir hvað veldur.“

„Mögulega hefðum við þurft að rótera meira á mannskapnum. Menn kannski orðnir þreyttir, ég veit það ekki,“ sagði Magnús.

Það er þó tilhlökkun í Eyjamönnum fyrir úrslitakeppninni og þeir eru ekki að baki dottnir. Það þarf að sigra tvo leiki til að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit.

„Þetta er þó geggjað, þetta eru alvöru leikir og svona viljum við hafa þetta.“

„Við þurfum að halda áfram að vinna í því sem við erum búnir að vera gera í síðustu fimm til sex vikurnar og það er varnarleikurinn. Hvert við viljum beina mönnum og hvar við viljum fá skot á okkur. Þetta er bara vinna sem heldur áfram bara endalaust,“ sagði Magnús um leikinn í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira